132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[16:25]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það er rétt, hér er á ferðinni mikið merkismál sem ástæða er til að líta á sem gott innlegg, gott upphaf til lagasetningar um lax- og silungsveiði. Ég held að málið sé töluvert frá því að nokkur kostur sé að ljúka því á þeim stutta tíma sem eftir er af þessu vorþingi, sem er fyrirhugað að ljúki þann 3. maí út af sveitarstjórnarkosningum. Það vantar inn í málið til að það sé mögulegt. Það á líklega eftir að taka þar mjög mikla pólitíska umræðu, sérstaklega um netaveiðarnar, sem ég mun koma hér að á eftir.

Þá er ástæða til að harma, ef rétt er sem sagt er, að ágreiningur milli framsóknarráðherranna hafi komið í veg fyrir að málið um Fiskræktarsjóð kæmi fram. Það er vonandi að það skýrist líka á næstu vikum og það mál megi koma fram hér í þinginu og ræðast og afgreiðast samhliða þessu í hv. landbúnaðarnefnd þó að steytt hafi á einhverjum ágreiningi þegar þessi mál komu hér inn í þingið og út úr ráðuneytinu.

En annars hefur hæstv. ráðherra og hans góða fólk unnið að mörgu leyti gott starf, það er ekki spurning. Það er líka ástæða til að hrósa þingskjalinu því að hér er gífurlega yfirgripsmikið safn fylgiskjala. Ég dundaði mér áðan við að fara í gegnum öll fylgiskjölin og við það má fá ágætt yfirlit yfir stöðu lax- og silungsveiða sem tómstundagamans og atvinnugreinar og það hve mikilvæg greinin er fyrir íslenska byggð.

Það er hægt að fullyrða að stangveiðin sé eitt af okkar táknum, rétt eins og íslenski hesturinn og annað slíkt sem eru tákn Íslands langt út í lönd og laða að mikinn fjölda ferðamanna ár hvert. Hingað kemur fjöldi ferðamanna til þess eingöngu að stunda stangveiði í hinum ýmsu vötnum Íslands. Í því sambandi má sérstaklega nefna Vesturland, eins og þekkt er, en í fylgiskjölunum er fullyrt að allt að 50% af tekjum bænda í uppsveitum Borgarfjarðar komi beint eða óbeint af stangveiði. Til samanburðar má geta þess að hlutur bænda í uppsveitum Árnessýslu er ekki nema rétt um 5% af stangveiði.

Þetta er þáttur í því, sem bent hefur verið á, að það sé mikilvægt að leggja til, samþykkja og lögfesta frekari hömlur á laxveiði í net. Í andsvörum við hæstv. landbúnaðarráðherra hér áðan lýsti ég undrun minni á því að ekki hefðu verið lagðar til frekari hömlur á laxveiði í net en gert er hér þar sem laxveiðar í net halda stangveiðinni á Suðurlandsundirlendinu að mörgu leyti í heljargreipum. Að mínu mati er verið að moka þar upp laxi og fiski, gríðarlegum verðmætum, nánast verðlausum en netalaxinn nær ekki að verða 1/36 af tekjum af laxi sem veiddur er á stöng. Einungis 7% heildarverðmætis árið 2003, fyrir þremur árum, af laxi voru af netalaxi. Hér er því um gífurlega hagsmuni að ræða. Lax á stöng má meta á 20.000 kr., jafnvel meira, en netveiddur lax er vel undir 1.000 kr., um 700–800 kr., það fer eftir útreikningum og spám. Það er alla vega gífurlegur verðmætamunur. Verðmæti stangveidds lax er margfalt á við þann netveidda og því er um gífurlegt hagsmunamál að ræða.

Þetta frumvarp verður, held ég, aldrei að lögum fyrr en einhvers konar sátt næst um að setja frekari hömlur á netaveiðarnar til að ekki sé verið að moka upp verðmætunum nánast verðlausum og koma þannig í veg fyrir að mikil búgrein og stórmerk íþróttagrein nái fótfestu. Mikill fjöldi útlendinga sækist eftir því að koma hingað og stunda þessa íþrótt og talið er að heildartekjur af veiðileyfum og þjónustu séu vel á annan milljarð. Hér er um að ræða mikla fjármuni, sérstaklega í ljósi atvinnuhátta hinna dreifðu byggða, búsetunnar í landinu og tækifæra landsbyggðar til að efla þær búgreinar sem fyrir eru og byggja upp nýjar.

Það urðu mér því vonbrigði að heyra svör hæstv. landbúnaðarráðherra sem virðist líta á það sem mannréttindi að bændur moki hömlulítið laxi upp í net, ekki sé ástæða til að setja því frekari skorður. Ég er því algjörlega ósammála. Það eru ekki mannréttindi að kasta verðmætum á glæ með þeim hætti. Þar er um að ræða veiðarfærastýringu og ýmsa aðra hluti sem snúast um að stýra sókn í auðlindir. Hvort sem það er fiskurinn í hafinu eða laxinn og silungurinn í vötnunum á að sjálfsögðu að setja því skynsamlegar skorður hvernig ganga beri um auðlindina og hvernig hámarka megi ábatann.

Við köstum gífurlegum verðmætum á glæ. Verðmæti netveidds lax er innan við 1.000 kr. en lax veiddur á stöng er metinn á yfir 20.000 kr. Verðmætamunurinn er slíkur að það hlýtur að kalla á að miklu vasklegar sé gengið til verka og þess freistað að ná þeim árangri að settar verði verulegar hömlur á laxveiði í net. Það gengur ekki að slíkar veiðar haldi niðri ánum alls staðar annars staðar á vatnasvæðinu og komi í veg fyrir að þær nái sér nokkurn tímann á strik.

Ekki er víst að grípa þurfi til fortakslauss banns en verulegar hömlur þurfa að koma til. Þetta mál snýst um allt í senn atvinnumál, tómstundamál og ferðamál og vegur þungt bæði hvað varðar uppbyggingu starfa og uppbyggingu þeirrar merkilegu og skemmtilegu atvinnugreinar sem er í kringum stangveiðina og alla þjónustu við hana. Hún er skemmtileg og ábatasöm atvinnugrein sem við þurfum að efla verulega. Leiðin til að efla hana er fyrst og fremst sú að fá einhvers konar skorður settar við laxveiði í net.

Það efast enginn um það eitt augnablik að þetta er flókið mál og viðkvæmt og pólitískt erfitt. En landbúnaðarráðherra er nú vaskur maður og hefur lengi verið með þetta mál í vinnslu, eins og hann lýsti hér í ræðu sinni áðan. Ég efast ekki um að hægt væri að leiða málið til lykta væri gengið í það með þeim hætti.

Vissulega snýst það um eignarrétt, bætur o.s.frv. Það er löng hefð fyrir netaveiðum og víða hafa staðið yfir miklar deilur um þessi mál í sveitunum. Það er ástæða til að gera gangskör í því að leysa þær deilur og ná sátt. Það er ótækt, frú forseti, að málum verði áfram fyrirkomið með þeim hætti sem nú er en frumvarpið tekur ekki frekar á því. Það er ekki hægt að lýsa yfir stuðningi við þetta mál nema hæstv. landbúnaðarnefnd nái einhverjum árangri í að setja frekari hömlur á laxveiði í net.

Hæstv. ráðherra gjörþekkir þessa löngu og langvarandi deilu af sínu heimasvæði. Það er ekki bara hægt að slá málið út af borðinu með því að segja að það séu mannréttindi að veiða hömlulítið eða hömlulaust í net, moka fiskinum upp úr ánum og rústa þannig öðrum og miklu meiri verðmætum sem stangveiðin er. Það er ótækt og engin röksemd í málinu. Í ýmsum fylgiskjölum er rakið hve mikil atvinnugrein þetta er, hve mikil auðlind þetta er. Þessa auðlind verðum við að efla og skjóta frekari stoðum undir og þetta er einn stærsti liðurinn í því.

Margt annað í frumvörpunum er að sjálfsögðu mjög gott eins og ákvæði um mannvirki í Veiðivötnum, stytting á veiðitímanum og fjöldamargt annað. Það er enginn efi í mínum huga að hér er margt sett fram sem á erindi inn í íslenska löggjöf. En málið steytir á þessu mikilvæga grundvallarmáli, stórpólitíska grundvallarmáli. Það er aldrei sársaukalaust að setja slíkar hömlur á en auðvelt að færa fyrir því yfirgripsmikil rök að það sé gert. Það er nauðsynlegt út af þeim hagsmunum sem eru fyrir borð bornir sé það ekki gert. Netaveiðin gerir að mörgu leyti út um stangveiðina á stóru svæði og það verður að koma skikki á þau mál.

En svona til fróðleiks má nefna að á Íslandi eru 250 ár og af þeim gengur laxinn í 90 ár. Þetta er því verðmæt auðlind og það er okkar að vernda hana og efla og nýta af skynsemi og viti og varkárni, eins og er gert að mörgu leyti. Ég gat þess áðan að um 50% af tekjum bænda í uppsveitum Borgarfjarðar væru beint eða óbeint frá stangveiði. Það er gífurlega hátt hlutfall og miklu hærra en hægt er að ímynda sér. Helmingur tekna þeirra. En einungis 5% af tekjum bænda í uppsveitum Árnessýslu koma frá stangveiði sem er hverfandi. Allt of lágt hlutfall af þeirri miklu auðlind sem streymir um undirlendið kemur bændum til tekna út af gífurlegum laxveiðum í net annars staðar í fjórðungnum.

Áður en ég lýk máli mínu ætla ég að vitna hér í ályktun frá Landssambandi stangveiðifélaga sem mér þykir draga þetta mál mjög vel saman. Að sjálfsögðu fylgjast þeir, bæði fagmenn og öflugir áhugamenn um stangveiðina, ákaflega vel með þessari lagasetningu og fagna mjög mörgu í henni og því hve mikil vinna er lögð í frumvarp til laga um lax- og silungsveiði. Þetta eru mennirnir sem gæta hagsmuna stangveiðiánna og annarra áa og við hljótum að taka mið og mark af þeirra ályktun og taka hana alvarlega inn í 1. umr. um málið. Ég ætla því að lesa þessa ályktun, með leyfi forseta, en hún barst frá Ingólfi Þorbjörnssyni, í dag 20. mars, til þingheims, að ég held:

„Mánudaginn 20. mars verður tekið til 1. umræðu á Alþingi frumvarp landbúnaðarráðherra um lax- og silungsveiði. Stjórn Landssambands stangveiðifélaga fagnar endurskoðun laganna og að verið sé að færa þau í nútímalegra horf.

Stjórnin harmar hins vegar að ekki var talin ástæða í undirbúningi lagasetningar til að leita eftir og hafa með sjónarmið hins stóra hóps stangveiðimanna hérlendis. Samtök stangveiðimanna hafa undanfarin ár bent á hagrænan ávinning þess að byggja upp lax- og silungsveiði með stöngina eina sem veiðarfæri, og eru mörg góð dæmi um ávinning bænda og landeigenda að slíku fyrirkomulagi.

Talið er að allt að 50% tekna bænda í uppsveitum Borgarfjarðar séu komin beint og óbeint frá stangveiði, á meðan hlutur bænda í uppsveitum Árnessýslu er ekki nema um 5% frá stangveiði. Það er því stjórn LS, sem og öðrum stangveiðimönnum, til undrunar að ekki skuli vera tekið upp í lagafrumvarpi landbúnaðarráðherra að banna eða setja verulegar hömlur á laxveiði í net, en netaveiði er nú nær eingöngu stunduð á Suðurlandi, á vatnasvæði Hvítár og í Þjórsá. Netaveiði skilar um 750 kr. á lax í tekjur á meðan stangveiddur lax er metinn á um 20 þús. kr. samkvæmt skýrslu Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands sem kynnt var á aðalfundi Landssambands stangveiðifélaga 2005.

Stjórn LS skorar á þingmenn að beita sér fyrir þeirri breytingartillögu í meðförum þingsins að laxveiði í net verði aflögð, eða henni að minnsta kosti settar þær hömlur að hún skerði ekki möguleika til uppbyggingar veiðisvæða í Hvítá og hliðarám hennar.“

Þetta er kjarni málsins, virðulegi forseti. Þetta er ákaflega föst en hófstillt ályktun sem undirstrikar mjög vel það sem skiptir mestu máli í umræðunni. Að sjálfsögðu verður fjallað ítarlega um það í hv. landbúnaðarnefnd. Allt það góða sem hér er lagt til verðskuldar að sjálfsögðu ítarlega umræðu einnig. Sjálfsagt mun 2. umr. verða löng og ítarleg komi málið úr nefndinni á þessu þingi.

En því fer fjarri að málið sé komið það langt í vinnslu að það komi aftur til 2. umr. á þessu þingi. Hæstv. landbúnaðarráðherra hlýtur að líta til þess að nýta tímann núna frá marsmánuði og fram til haustins, fram til 1. október, að Alþingi kemur saman aftur til síðasta þingveturs þessa kjörtímabils. Hann hlýtur að koma þá með burðugra mál sem er nær því takmarki sem hér er getið um og sérstaklega því sem ég nefndi hér áðan er tekur til neta- og stangveiða.

Það verður að vera sátt um þessi mál. Það er ástæða til að nota þetta tækifæri, þetta frumvarp til laga um lax- og silungsveiði, til að ná endalokum í þeim löngu deilum sem hafa staðið yfir vegna netaveiða á laxi í ám. Eins og ég sagði áðan, og segir hér í ályktuninni, með leyfi forseta:

„Komi slíkar hömlur ekki til eru möguleikar til uppbyggingar veiðisvæða, t.d. í Hvítá og hliðarám hennar, einfaldlega ekki til staðar. Þá verður það veiðisvæði áfram meira og minna fiskilaust eða fiskilítið, verðmætalítið, og svo langt frá að skila landeigendum og bændum og ábúendum þar í sveitunum þeim ábata sem eðlilegur og sanngjarn hlýtur að teljast.“

Eins og ég sagði áðan: Netveiðin skilar svo litlum ábata, í kringum 1/30 hluti af verðmætum af stangveiddum laxi nást í netveiddum laxi.