132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[16:42]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í málefnalegri umræðu um þetta mál vil ég biðja hv. þingmann að orða það ekki svo sem ég hef aldrei sagt í þessum ræðustól. Ég hef aldrei sagt að það væru mannréttindi að moka upp laxi í net. Ég sagði það aldrei í minni ræðu. Ég álít að fara eigi vel með allar auðlindir og hef ekki talað um það sem mannréttindi.

Ég hef hins vegar sagt hér, hæstv. forseti, að hinir færustu menn telja að það yrði mikill útgjaldaliður fyrir ríkisvaldið að banna með lögum veiði í net í straumvatni, ekki bara í þeim fáu ám sem eru enn með net niðri, heldur mundu öll önnur straumvötn sem hafa með samningum tekið upp sína netaveiði. Einnig mundu þeir eigendur gera kröfur um bætur því þá er veiðiauðlindin farin úr þeirra höndum þar sem víða er ekki hægt að veiða öðruvísi en í net. Það þekkjum við.

Nú vitum við, ég og hv. þm. Björgvin Sigurðsson, að það er talsverður friður með Árnesingum þrátt fyrir að enn sé deilt um þetta svæði. Við vitum það báðir að víða í Ölfusá og Hvítá er veitt á stöng og vaxandi. Við vitum það líka báðir að netin eru niðri á tiltölulega fáum stöðum. Við vitum báðir að það er skynsamlegt að menn semji um þessi mál og fái til þess frið.

Stangveiðimenn hafa flestallar ár þessa lands og þjónusta veiðifélög og bændur um allt land og gera það mjög vel. Þeir verða því auðvitað að hugsa um þetta svæði eins og annars staðar, þeir verða að fást við laxinn, eiganda jarðarinnar, semja við hann, draga hann að landi (Forseti hringir.) þannig að báðir standi uppi sáttir. Eða leggur hv. þingmaður til að engin veiði verði í Þjórsá, að þar verði bannað að leggja net? Er það hans vilji?