132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[16:48]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem við erum sammála um, ef ég skil hæstv. ráðherra rétt, er að málið verði ekki lögfest fyrr en sú sátt hefur gengið fram (Gripið fram í.) og ný lög um lax- og silungsveiði feli í sér að miklu meiri hömlur verði settar á netaveiðina en nú er um að ræða og er að finna í þeim frumvarpsdrögum sem við ræðum hér í dag.

Við erum ekki sammála, við hæstv. landbúnaðarráðherra, telji hann að það frumvarp sem við ræðum hér í dag gangi nógu langt. Það verður að lögfesta það í íslenska löggjöf hvernig þessum málum eigi að vera fyrirkomið, burt séð frá þeirri samningaumleitan sem nú stendur yfir. Ég kallaði eftir því að hæstv. landbúnaðarráðherra kæmi ekki fram með málið aftur til 2. umr. fyrr en búið væri að leiða þetta til lykta og ná sáttum um hvaða hömlur við eigum að setja við netaveiðunum. Fortakslaust bann þarf ekki að koma til af því boð og bönn eru aldrei eftirsóknarverð þó svo (Forseti hringir.) það komi til greina sem ein af þeim leiðum (Forseti hringir.) sem eru skoðaðar til að við náum þeim árangri sem við þurfum á ná.