132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[16:53]
Hlusta

Gunnar Örlygsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni svörin. En ég vil um leið nota tækifærið og upplýsa hann um 15. gr. í lögum nr. 11 frá 1973, um framkvæmd eignarnáms.

Gefum okkur að hér sé um eignarnám að ræða og bændum verði greiddar bætur. Þá vil ég lesa þessa grein fyrir hv. þingmann. En svo segir, með leyfi forseta:

„Eignarnemi getur horfið frá fyrirhuguðu eignarnámi,“ — sem er þá ríkið í þessu tilfelli — „ef hann segir til þess innan mánaðar frá því að mat á eignarnámsbótum lá fyrir, en bæta skal hann allt tjón, sem rakið verður til aðgerða hans.“

Með öðrum orðum er verið að segja í þessari grein, frú forseti, að eignarnemi geti horfið frá fyrirhuguðu eignarnámi ef bæturnar verða það háar að hann telur sig ekki ráða við þær. Því vil ég spyrja hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hvort hann sé sammála mér um að hér sé þá í raun ekki um neina áhættu fyrir ríkið að ræða, ef þessi leið verður farin á annað borð.