132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[16:54]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var góð spurning og prýðileg nálgun hjá hv. þingmanni. Ég held að hér sé ekki um að ræða neina verulega áhættu fyrir íslenska ríkið í sjálfu sér og alls ekki þannig að það eigi að fæla hið opinbera frá því að ganga til þessara verka. Ég held að það sé miklu frekar viljinn til að reyna samningaleiðina til þrautar, til að þurfa ekki að fara harðari leiðir, sem ætti að hindra ríkið í að ganga þessa leið.

En ég held að það sé ekki um að ræða neina sérstaka áhættu fyrir hið opinbera. Auðvitað er um að ræða verulega fjármuni o.s.frv. Það eitt og sér á ekki að koma í veg fyrir að þetta verði gert, heldur miklu frekar það að samningsleiðin, sé hún fær, er alltaf betri leið en eignarnám af einhverri sort.