132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[17:00]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Samfylkingin er að láta fara sérstaklega yfir það hver kostnaðurinn gæti hugsanlega verið og ég held að fleiri hafi gert slíkt hið sama og séu að láta kanna það en það þarf að sjálfsögðu að leggjast sérstaklega yfir það við þessa vinnu því auðvitað skiptir upphæð bótanna einhverju máli þó svo í lengri tíma ljósi sé það eðlilegur fórnarkostnaður til að ná lendingu í þessu mikilvæga máli sem er að mörgu leyti grundvallarmál. Ég get ekki nefnt hver upphæð bótanna verður af því að verið er að skoða málið fyrir okkur og verður fróðlegt að heyra það ef það kemur fram síðar í umræðunni hjá einhverjum öðrum sem hefur látið reikna út hver sú upphæð gæti hugsanlega verið. En það má lengi um það deila og það verður örugglega tekist á um það þegar þar að kemur. En ég ætla ekki að nefna tölu á þessari stundu.