132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[17:01]
Hlusta

Gunnar Örlygsson (S):

Frú forseti. Í fyrsta sinn frá árinu 1970 er nú stefnt að viðamiklum breytingum á lögum um lax- og silungsveiðar. Í fyrsta lagi er lagt til að sett verði sérstök lög um fjóra málaflokka sem samkvæmt núgildandi lögum eru inni í lagatexta um lax- og silungsveiðar. Þetta eru ákvæði um Veiðimálastofnun, ákvæði um varnir gegn fisksjúkdómum, ákvæði um fiskrækt og ákvæði um fiskeldi. Þá hefur uppbyggingu laganna verið breytt, bæði í því skyni að einfalda og skýra sem og að samræma fyrirkomulag og uppbyggingu laganna viðteknum viðhorfum við lagasmíð í upphafi 21. aldarinnar eins og segir í athugasemdum frumvarpsins.

Ég er í sjálfu sér sáttur við þær formbreytingar sem stendur til að gera á lögunum enda kominn tími til. Ég vil hins vegar í þessari fyrstu ræðu minni gera alvarlegar athugasemdir við 27. gr. frumvarpsins sem fjallar um veiðitæki og veiðiaðferðir á laxi og silungi. Í greininni kemur fram að hæstv. landbúnaðarráðherra hyggst ekki breyta lögum eða reglum um netaveiðar í straumvatni. Áfram skal laxinn veiddur í net í íslenskum ám en eins og allir Íslendingar vita hafa íslenskar ár og villti Norður-Atlantshafslaxinn fært íslenska þjóðarbúinu miklar tekjur á síðustu árum. Er þar fyrir að þakka stóraukinni ferðaþjónustu þar sem markaðssetning á íslenskum ám til stangveiða hefur rutt brautina.

Í 1. mgr. 27. gr. frumvarpsins segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Í straumvatni má við veiðar aðeins nota færi, stöng, lagnet og króknet.“

Ég hef ítrekað vakið athygli á nauðsyn þess að banna með lögum allar netaveiðar í íslensku straumvatni. Nú gefst Alþingi við meðferð þessa frumvarps tækifæri til að breyta lögunum í þá veru að netaveiðar verði með öllu óheimilar í straumvatni um ókomna tíð.

Þekktar undantekningar, eins og til að mynda vegna klakveiði og vísindarannsókna, verða þó áfram að halda gildi sínu enda nauðsynlegar en í 1. gr. frumvarpsins segir að markmið laganna sé m.a. að kveða á um skynsamlega og hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskstofna í ferskvatni og verndun þeirra. Samkvæmt upplýsingum frá hagfræðideild Háskóla Íslands stunda um það bil 60 þúsund manns á Íslandi stangveiði og um það bil 5 þúsund erlendir veiðimenn koma hingað til veiða á ári hverju. Bein og óbein áhrif stangveiða má meta á 7,8–9,1 milljarð kr. á ári. Þar af eru beinar tekjur til veiðifélaga 1.000–1.200 millj. kr. árlega.

Milli 1.000 og 1.200 störf eru til vegna stangveiða og sem dæmi má nefna að önnur hver króna sem skilast til bænda af Vesturlandi kemur til vegna stangveiðinnar. Af þessu sést hversu mikið hagsmunamál það er fyrir bændur að netaveiðar verði í eitt skipti fyrir öll afnumdar þar sem ferðaþjónusta tengd stangveiði er hundruðum bænda í þessu landi lífsnauðsynleg.

Með afnámi netaveiða myndast hvati til stórsóknar í stórri atvinnugrein á íslenskan mælikvarða, stórsóknar sem mun laða fram fjölda nýrra starfa og stórauknar tekjur til ríkissjóðs. Ekki skal gleyma að lagasetning sem leggur algert bann við netaveiðum er í þágu umhverfisverndar og mun án efa verða til frekari vaxtar og viðgangs okkar ómetanlega villta laxastofns.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum má tífalda verðmæti laxveiða á vatnasvæði Ölfusár og Hvítár með upptöku netanna. Heimamenn með Atvinnuþróunarsjóð Suðurlands í fararbroddi gerðu vandaða skýrslu þar sem þessi fullyrðing kemur fram. Er því óneitanlega um mikið hagsmunamál að ræða fyrir nærliggjandi byggðir en í dag er allur hvati til ræktunarstarfs, gerð sleppitjarna og uppbyggingar í ferðaþjónustu tengdri stangveiði laminn niður með netaveiðinni á þessu tiltekna svæði. Það liggur því óneitanlega í augum uppi að netaveiðin á ekki við í dag þó svo markmið laganna hafi ekki breyst um langa hríð. Laxinn er ekki eins verðmætur sem matvara og áður var en einnig hefur stangveiði þróast á síðustu áratugum í þá átt að vera mikilvæg atvinnugrein sem skilar þjóðarbúinu miklum tekjum.

Með banni á netaveiðum kemur til bótaréttur bænda sem enn í dag nýta veiðihlunnindi sín til netaveiða. Matsnefnd eignarnáms tekur við því ferli og metur að sjálfsögðu það tekjutap sem bændur verða fyrir og leggur í framhaldinu fram tilboð til bænda til bóta. Í dag njóta bændur á vatnasvæði Ölfusár og Hvítár tekna upp á 4–6 millj. kr. á ári vegna netaveiðinnar. Hér er vert að staldra örlítið við, frú forseti, og upplýsa um svokallað Ásgarðsmál sem fór fyrir Hæstarétt árið 1984.

Til að gera langa sögu stutta ómerkti Hæstiréttur niðurstöðu matsnefndar eignarnáms á þessu 780 hektara landi sem í dag eins og áður hýsir eitt besta laxveiðisvæðið við Sogið. Málið hófst árið 1979 eftir fráfall Helgu Jónsdóttur en hún og maður hennar sálugi, Sigurliði Kristjánsson, höfðu samkvæmt erfðaskrá sinni ákveðið að arfleiða Skógrækt ríkisins, Hjartavernd og Reykjavíkurborg að Ásgarðslandinu. Samkvæmt þágildandi jarðalögum átti Grímsneshreppur forkaupsrétt og hófst deilan um verðmæti jarðarinnar árið 1979 eða skömmu eftir fráfall Helgu.

Ný gögn, eins og til að mynda samningur frá 1984 milli landeigenda og Stangveiðifélags Reykjavíkur, voru lögð fram til grundvallar í Hæstarétti. Sá samningur hljóðaði upp á 478.500 kr. og var fyrir allan rétt til stangveiða á Ásgarðssvæðinu frá vori til hausts það árið. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að greiða þyrfti 2 millj. kr. fyrir veiðihlunnindin eða rúmlega fjórum sinnum meira en samningurinn gaf af sér ár hvert.

Þessi niðurstaða hlýtur að sjálfsögðu að vera fordæmisgefandi ef til þess kemur að netaveiði verði óheimil samkvæmt lögum. Því tel ég fullkomlega verjandi að ríkissjóður ásamt hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu greiði bændum bætur og tryggi þar með í eitt skipti fyrir öll að netaveiði leggist af í íslenskum ám.

Málið er ekki einskorðað við Ölfusársvæðið heldur hóta nú netabændur í Borgarfirði að leggja netin aftur í Hvítá vestri ef greiðslur til þeirra hækki ekki til muna. Þá er einnig vitað að netaveiði er stunduð á laxi, sjóbirtingi og silungi víðs vegar annars staðar á landinu.

Frú forseti. Með lagasetningu um afnám netaveiða í straumvatni verður tryggt að netabændur fái bætur. Bændur munu áfram vera fullgildir eigendur sinna jarða og áfram munu bændur ráða yfir þeim veiðihlunnindum sem jarðir þeirra ná yfir í dag. Eina breytingin yrði sú að bændum yrði ekki lengur heimilt að veiða lax eða silung í net. Með öðrum orðum getur löggjafinn lagt fram veiðarfærastýringu á þeim náttúruauðlindum sem íslenskt straumvatn hefur að geyma og má líkja þessu við þá sjálfsögðu og mikilvægu veiðarfærastýringu sem lög nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, fela í sér. Þúsundir sjómanna og útgerðarmanna hringinn í kringum landið þurfa daglega í sínum störfum að gangast við veiðarfærastýringu og temja sér veiðiaðferðir sem löggjafinn setur fram á hverjum og einum tíma.

Af hverju skyldi löggjafinn ekki tryggja hámarksnýtingu á auðlindum sem teljast til vatnafiska rétt eins og gert er með auðlindina sem íslenskt hafsvæði hefur að geyma? Þetta er einungis spurning um vilja löggjafans til að virða 1. gr. frumvarpsins, frú forseti, og tryggja hámarksnýtingu á okkar náttúruauðlindum þar sem sjálfbær umhverfisstjórnun er höfð að leiðarljósi.

Rætt hefur verið um hnignun laxastofna annars staðar í Atlantshafinu og að gott ástand mála sé ekki sjálfgefið. Engu að síður geta netabændur í okkar landi sumarlangt girt af árnar með lagnetum í orðsins fyllstu merkingu og sópað til sín stærstu laxagöngunum ár hvert.

Laxveiðiframboð á Íslandi er nú um 34 þúsund stangadagar á ári en samkvæmt skýrslu Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands myndast hvati með afnámi netaveiða til uppbyggingar á vatnasvæði Ölfusár og Hvítár, hvati sem gæti mögulega skilað 10 þúsund stangadögum á sama svæði árlega. Umrætt vatnasvæði er það langstærsta og víðfeðmasta á Íslandi ef ekki í Evrópu allri. Það er því sorglegt og allt að því skondið að einungis örfáir netabændur skuli geta stöðvað þetta ferli. Hér verður löggjafinn að grípa inn í og tryggja frekari vöxt og viðgang íslenskrar ferðaþjónustu sem og okkar ómetanlega villta laxastofns. Í Bandaríkjunum er sama laxategund á lista yfir dýr í útrýmingarhættu. Það er með ólíkindum, frú forseti, að við Íslendingar skulum horfa upp á blóðuga magnveiði þar sem netatrossur eru dregnar inn sumarlangt fullar af villtum laxi sem lítið verð fæst fyrir nema hann sé veiddur á stöng.

Á síðustu áratugum hafa hagsmunaaðilar með Stangveiðifélag Reykjavíkur, Orra Vigfússon og fleiri aðila í broddi fylkingar ítrekað reynt að ná samningum við netabændur um allt land þar sem boðið er upp á greiðslur til bænda við upptöku neta. Á stundum hefur það gefist afar vel og fyrir vikið hafa þau vatnasvæði náð að dafna og vaxa í takt við þróun og frábæran árangur sem fyrir liggur eftir breytingar á hverjum og einum stað fyrir sig. Sem dæmi má nefna frábæran árangur við Selá og Hofsá í Vopnafirði sem eru afar dýrmætar laxveiðiár á Norðausturlandi. Ekki nokkrum viti bornum manni mundi detta í hug að snúa við þeirri þróun sem átt hefur sér stað í þessum ám með því að hefja á nýjan leik netaveiðar.

Sömu sögu má segja frá mörgum af okkar bestu laxveiðiám. Þrátt fyrir mikið frumkvæði og áratugabaráttu hefur hagsmunaaðilum fyrir upptöku neta á vatnasvæði Ölfusár og Hvítár ekki enn tekist að ná samningum við netabændur. Fyrir vikið hafa bergvatnsbændur og þjónustuaðilar á nærliggjandi svæðum misst af þeim miklu tækifærum sem bændur víða annars staðar á landinu hafa nýtt sér með góðum árangri. Nú síðast lagði Stangveiðifélag Reykjavíkur fram tilboð til Veiðifélags Árnesinga með árlegri greiðslu upp á 9 millj. kr. fyrir upptöku netanna í jökulánum áðurnefndu. Upphæðin átti að renna óskert til örfárra netabænda sem enn stunda þann búskap að veiða lax í net.

Á síðasta ári voru tekjur hinna sömu af netaveiðum helmingi lægri en hér um ræðir eða um það bil 4–5 millj. kr. Er þá ekki búið að reikna til og draga frá þann kostnað sem hlýst af netaútgerðinni. Þessu tilboði var ekki tekið af hálfu Veiðifélagsins þó svo fjölmargir bændur þar innan dyra og þá sérstaklega bergvatnsbændur vilji netin upp. Hvað segir þetta okkur, frú forseti? Þetta upplýsir okkur um það að tilboð í formi peningagreiðslna til bænda skipti ekki máli í þessu tilviki. Ákveðnir netabændur á vatnasvæði Ölfusár og Hvítár láta sig engu varða þó svo þeim séu boðnar 2 kr. í stað einnar sem kemur til vegna sölu á netveiddum laxi. Með öðrum orðum er þetta áhugamál í þeirra huga, áhugamál sem þeir vilja ekki skipta út fyrir peninga.

Hver er ábyrgð þessara manna og hver er ábyrgð okkar hér á löggjafarþinginu? Okkar ábyrgð er að láta ekki einn sitja yfir annars hlut. Málið er alvarlegt og ekki verður séð að vandamálið verði leyst nema til breytinga komi á þessum lögum.

Netabændur á vatnasvæði Ölfusár og Hvítár veiða þúsundir laxa í net árlega eða margfalt það magn sem stangveiðin skilar af sér árlega á sama svæði. Engu að síður eru tekjur bænda af stangveiðinni margfalt hærri en tekjur netabænda á sama vatnasvæði. Lax sem er veiddur á stöng er einfaldlega margfalt meira virði en netveiddur lax sem selst á lágu verði í verslanir. Það alvarlega er að tekjur af stangveiðinni geta enn margfaldast með upptöku netanna enda er efnahagslegur ávinningur af slíkri aðgerð ótvíræður.

Þegar þessum lögum var síðast breytt á Alþingi eða árið 1970 voru netaveiðinni settar ákveðnar hömlur. Í stað þess að veiða mætti alla daga vikunnar var skorið niður sem því svaraði að netaveiðar má einungis stunda frá þriðjudegi til föstudags eða hálfa vikuna. Fordæmin sem gefin voru þá til breytinga hafa aukist til muna eins og gefur að skilja. Á þeim tíma var velta vegna stangveiða ekki 7,8–9,1 milljarður kr. á ári eins og er í dag. Ég velti því fyrir mér, frú forseti, hvort veltan og viðskiptin vegna stangveiðinnar á þeim tíma hafi náð að vera 10% af þeirri upphæð sem er uppi á teningnum í dag.

Það hníga öll rök til aðgerða í þessu máli. Reynslan hefur sýnt okkur með óyggjandi hætti að stangveiðin skákar netaveiðinni. Það má vera að fyrir hálfri öld eða svo hafi bændur aflað meiri tekna með netaveiði en þá fékkst fyrir sölu á veiðileyfum vegna stangveiði. Öllum mönnum er ljóst að viðsnúningur hefur orðið á verðmætum stangveiðanna annars vegar og netaveiðanna hins vegar og mig grunar, frú forseti, að netabændur sem enn stunda sína útgerð í dag viti betur og líka hæstv. landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson. Auðvitað ber okkur öllum að virða gamlar hefðir og gamla siði en að sama skapi breytist umhverfi okkar og fyrir vikið er það skylda okkar hér á löggjafarþinginu að tryggja atvinnulífinu það umhverfi sem tíminn kallar á hverju sinni. Netaveiðar í íslensku straumvatni eru tímaskekkja.

Frú forseti. Á 4. áratug síðustu aldar hættu menn svokallaðri ádráttarveiði í íslenskum ám enda var hún talin ógna lífríkinu og þar með tekjuöflun bænda af laxfiskum til framtíðar. Ég óska að sjá breytingu á 1. áratug núlíðandi aldar þar sem netaveiði verði alfarið hætt og ímynd íslenskrar ferðaþjónustu njóti vel og ný tækifæri líti dagsins ljós. Ég tala fyrir breytingum sem kalla má byggðar- og atvinnumál, frú forseti, enda stangveiðiiðnaðurinn orðinn stór iðnaður á íslenskan mælikvarða. Við getum ekki, frú forseti, látið örfáa bændur veiða þúsundir laxa í net á ári hverju og þá um leið hamla allri uppbyggingu tengdri stangveiði á jafnstórum vatnasvæðum og ég hef áður lýst í ræðu minni.

Ég mun styðja þetta frumvarp hæstv. landbúnaðarráðherra en þó með þeim fyrirvörum sem ég hef tíundað í ræðu minni í dag. Ég mun beita mér fyrir því að 27. gr. frumvarpsins taki breytingum í meðförum þingsins. Í seinni ræðu minni í dag, frú forseti, mun ég áfram færa rök fyrir þeim fyrirvara sem ég hef sett við frumvarpið.