132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[17:21]
Hlusta

Gunnar Örlygsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig grunar einfaldlega að hæstv. ráðherra fylgist ekkert með því sem er að gerast fyrir austan. Það veiddust rétt tæplega 3.000 laxar í net á vatnasvæði Hvítár og Ölfusár sumarið 2005. Hver þeirra er um það bil 750 kr. virði. Það hefur komið fram í ítarlegum rannsóknum og skýrslum að verðmæti stangveidds lax séu 20 þús. kr. Það sér það hver viti borinn maður að hér verður löggjafinn að grípa inn í með öflugri veiðarfærastýringu svo að við tryggjum hámarksnýtingu á þessum miklu auðlindum.

Mér finnst einkennilegt af hæstv. landbúnaðarráðherra að styðja hér breytingar við lög nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, þar sem kemur að veiðarfærastýringu. Af hverju eiga bændur ekki að gangast við veiðarfærastýringu eins og sjómenn? Ég hef hvergi og aldrei heyrt rök fyrir því, aldrei.

Það stendur einnig í lögum nr. 11, um eignarnám, frá árinu 1973 í 15. gr. (Forseti hringir.) að ef bætur eru úrskurðaðar of háar þá geti (Forseti hringir.) eignarnemi fallið frá kröfu sinni innan mánaðar frá því að matið liggur fyrir. Áhættan er engin, frú forseti.