132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[18:20]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður vísaði til lagasetningar sem átti sér stað árið 1970 og velti fyrir sér hvort sú lagasetning gæti verið fordæmisgefandi fyrir þetta mál hér — þ.e. ef menn færu þá leið að banna netaveiðar í straumvatni — en í því tilviki hefðu ekki verið greiddar bætur.

Ég þekki svo sem ekki nákvæmlega hvað fór fram árið 1970 og get ekki metið hvort þar er um fordæmisgefandi löggjöf að ræða. Ég er almennt þeirrar skoðunar, eins og ég hef áður nefnt, að veiðiréttindi teljist til eignarréttar landeigenda og verði ekki tekin af mönnum nema bætur komi fyrir. Ef löggjafinn gripi til aðgerða eins og þessara tel ég að það myndi að öllum líkindum leiða til skaðabótaskyldu.

Hv. þingmaður telur fullreynt að samningar náist og ég get að mörgu leyti tekið undir það. Ég spyr hvað gera skuli í þeirri stöðu. Hvað á þá að gera til að ná fram þessum markmiðum?

Þetta er pólitísk spurning sem við þurfum að svara hér á hinu háa Alþingi á grundvelli þess hagsmunamats sem þarf að fara fram. Ég er að kalla eftir því í þessari ræðu minni að það hagsmunamat fari fram í hv. landbúnaðarnefnd, að menn vegi það og meti hvaða hagsmunir eru í húfi, annars vegar varðandi stangveiðina og ferðaþjónustuna og hins vegar varðandi þær tekjur sem menn hafa af netaveiðum. Á grundvelli þess mats tækju menn ákvörðun.