132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[18:25]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var mjög merkilegt svar, mjög áhugavert svar. Þá höfum við það á hreinu að einn af fremstu lögspekingum í þingflokki Sjálfstæðisflokksins er þeirrar skoðunar að ríkið skuli borga herkostnaðinn af þessu.

Nú veit ég að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson er ágætur lögfræðingur. Hann svaraði hárrétt þeirri spurningu, sem var lögð fyrir hann áðan, hvort verið væri að tala um veiðarfærastýringu eða eignaupptöku. Ef netin yrðu bönnuð væri að sjálfsögðu um eignaupptöku að ræða. Ég skal fara yfir það í ræðu minni hér á eftir. Þessu svaraði hv. þingmaður alveg hárrétt.

En þá langar mig að spyrja: Er það þá ekki upptaka á eigum almennings, þ.e. skattfé borgaranna, að eignarréttur sé hirtur af bændum og fólkið í landinu látið borga fyrir það úr sínum sameiginlegu sjóðum? Til hvers? Jú, til að einhverjir aðrir geti síðan tekið út aukinn hagnað af auðlindinni, þ.e. hugsanlega stangveiðimenn eða veiðiréttareigendur við árnar þar sem stangveiðin er leyfð.

Fær hv. þingmaður þetta dæmi til að ganga upp í sínum huga ef hann hugsar það til enda, þ.e. að rétt sé að velta kostnaðinum yfir á skattborgarana? Væri ekki miklu eðlilegra og skynsamlegra að þessi mál yrðu einmitt leyst, eins og hv. þingmaður benti réttilega á, með þeim hætti að einkaframtakið og frelsi einstaklinganna fengi frið til að ráða sínum ráðum og finna lausn á þessum hlutum? Þá greiða þeir reikningana sem ber að greiða þá og þeir fá bætur sem yrðu fyrir því að réttindi þeirra yrðu skert.