132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[18:53]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fór hér yfir 49. gr. þessa frumvarps og þar segir beinlínis, ef lesa á út úr henni eins og hún stendur hér, að bótaskylda muni lenda á ríkissjóði. Ég tel að við eigum að reyna að setja þessi lög þannig upp að bótaskyldan lendi ekki á ríkissjóði heldur á þeim sem munu hagnast við breytinguna.

Ég held að það sé miklu æskilegra að koma þessu máli í þann farveg að veiðiréttareigendur nái samkomulagi um hvernig netaveiðin eigi að breytast, og væntanlega stöðvast einhvern tímann í framtíðinni, og semji um það. Þannig komi þá fébætur til þeirra sem hætta veiðunum eða breyta þeim. Ég geri ráð fyrir því að inn í slíkt mat sé allt metið, líka hagur þeirra sem jafnvel fara að hagnast meira á því að breyta sínum háttum.

Þess vegna held ég að það sé mikið gæfuspor að leita þeirra leiða að ná því samkomulagi og vil þess vegna ekki fara lagaþvingunarleið ef önnur leið er í boði.