132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[18:58]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um lax- og silungsveiði. Er hér um að ræða heildarendurskoðun á lögum nr. 76 frá árinu 1970. Vil ég fagna því að það frumvarp sem hér um ræðir sé komið fyrir hv. Alþingi. Það var löngu tímabært að taka þessi lög til heildarendurskoðunar. Ég sé að mikil og vönduð vinna hefur farið fram af hálfu hæstv. landbúnaðarráðherra við endurskoðun á þessum lögum.

Ég geri mér grein fyrir að hv. landbúnaðarnefndar bíður mikil vinna að fara yfir þetta mikla frumvarp, sem er 58 greinar að efnisinnihaldi, og er mjög mikilvægt að nefndin leggi sig fram við að fara mjög gaumgæfilega ofan í það. Málefnið er viðkvæmt og snertir byggðarlög og landeigendur hringinn í kringum landið, almenning og stangveiðimenn þannig að það er mikilvægt að horft sé til allra þeirra þátta sem ég nefndi hér áður.

Umræðan um 27. gr. frumvarpsins hefur verið fyrirferðarmest. Er þar verið að vísa í veiðitæki og veiðiaðferðir í straumvatni. Að mínu mati bendir allt til þess, eins og umræðan hefur þróast hér, að ef við, hv. alþingismenn, vildum ganga þá leið að banna netaveiði í straumvatni með lögum yrði það ekki gert bótalaust. Það tel ég að sé nokkuð óumdeilt.

Við finnum fyrir miklum þrýstingi utan úr samfélaginu, sérstaklega frá stangveiðimönnum, að Alþingi banni með lögum netaveiði í straumvatni. Þá er eðlilegt að við spyrjum okkur: Hver á að borga fyrir þá lagasetningu?

Ef Alþingi Íslendinga, löggjafinn, bannar netaveiði í straumvatni með lögum hlýtur ríkið að greiða þann kostnað sem því fylgir. Ég tel að það væri vert að hv. landbúnaðarnefnd athugaði hvað slíkt mundi kosta. Ég tel að þar sé um verulega fjármuni að ræða fyrir íslenska ríkið, milljónir króna, og fyrir mitt leyti er ég ekki tilbúinn að samþykkja slíkar breytingar.

Ég tek undir með þeim ræðumönnum sem hafa lagt áherslu á að hér sé fyrst og fremst um að ræða samkomulagsatriði á milli netaveiðibænda í Ölfusá og Hvítá og ég vil vera svo bjartsýnn að þeir samningar náist og menn mætist þar á miðri leið. En ég dreg ekkert úr því að hér er um réttindi landeigenda að ræða, netaveiðiréttindi, og það voru tilfinningaþrungin andsvör sem gengu fyrr í dag á milli hæstv. landbúnaðarráðherra og hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar um þessi málefni sem snerta þeirra heimahérað. Ég tók eftir því að í þeim orðaskiptum kom sú skoðun fram hjá báðum hv. þingmönnum að ekki væri rétt að banna netaveiðar í þessum ám með lögum heldur ættu menn að ná fram samkomulagi. Ég tel því einsýnt að meiri hluti sé fyrir því á hinu háa Alþingi að menn reyni að ná samkomulagi líkt og ég hef rætt hér. (Gripið fram í.)

Það getur vel verið, eins og hv. þm. Gunnar Örlygsson bendir á, að mikill meiri hluti sé fyrir því á Alþingi að þetta verði bannað með lögum en ég bendi á að stjórnarflokkar ríkisstjórnarinnar hafa afgreitt þetta mál úr sínum þingflokkum. Ég veit til þess að fyrirvarar eru gerðir af ýmsum þingmönnum og þar á meðal þeim sem hér stendur. En það lýtur ekki að því atriði sem hv. þm. Gunnar Örlygsson hefur gert að umfjöllunarefni í ræðu sinni og snertir 27. gr., heldur lýtur það að 15. gr. frumvarpsins sem snýr að veiðum göngusilungs í sjó. Ég tek undir þá ábendingu hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar að í markmiðs- og gildissviði laganna sé ekki tekið á veiðum í sjó. Þar er einungis sagt að markmið þessara laga sé að kveða á um eignarhald veiðiréttar í ferskvatni og skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskstofna í ferskvatni og verndun þeirra. Ekki er minnst á veiðar í sjó sem þó eru gerðar að umtalsefni í mörgum greinum í frumvarpinu.

Í 2. mgr. 15. gr. núgildandi laga er sagt, með leyfi forseta:

„Á tímabilinu 1. apríl til 1. október má eigi leggja net né hafa ádrátt í sjó nær ósi straumvatns en 1.500 metra ef meðalvatnsmagn ár er innan við 25 m 3 á sekúndu en 2.000 metra ef vatnsmagnið er meira og eigi nær en 1.500 metra frá hafbeitarstöð, enda gangi fiskur í það vatn eða þá hafbeitarstöð.“

Í því frumvarpi sem við ræðum hér segir, með leyfi forseta, í 3. mgr. 15. gr. laganna:

„Á tímabilinu 1. apríl til 1. október ár hvert má ekki leggja net né hafa ádrátt í sjó nær ósi straumvatns, sem fiskur gengur í, eða hafbeitarstöðvar en 2.000 metra.“

Hér er því verið að þrengja réttindi landeigenda sem hafa nýtt sér veiðiréttindi 1.500–2.000 metra frá ósi sem eru innan við 25 rúmmetrar á sekúndu í rennsli.

Í 49. gr. í lagafrumvarpinu er fjallað um bótaskylduskerðingu á veiðirétti. Segir þar í 1. mgr.:

„Nú hafa lagaákvæði leitt til þess að veiði veiðieiganda skerðist verulega og að mun umfram aðra eigendur veiði í sama fiskihverfi, og á hann þá rétt til bóta úr ríkissjóði eftir mati.“

Mér finnst eðlilegt að við veltum fyrir okkur eftirfarandi dæmi: Við skulum hugsa okkur landeiganda sem hefur nýtt sér þau réttindi að fá að veiða frá 1.500 upp í 2.000 metra frá ósi í áraraðir og áratugi, hefur nýtt sér það að vera með netalögn til að veiða göngusilung við sjó. Ef það frumvarp sem við ræðum hér verður að veruleika eru þau réttindi réttilega tekin af viðkomandi eiganda. En nú á hann nágranna sem er 2.000 metra frá ósi. Þessi lagasetning hefur engin áhrif á réttindi þess landeiganda. Nú endurtek ég það sem stendur í 49. gr.:

„Nú hafa lagaákvæði leitt til þess að veiði veiðieiganda skerðist verulega og að mun umfram aðra eigendur“ — sem sagt nágrannann — „veiði í sama fiskihverfi, og á hann þá rétt til bóta úr ríkissjóði eftir mati.“

Ég fer þess á leit við hv. landbúnaðarnefnd og formann nefndarinnar að það verði skoðað sérstaklega hvort hér sé verið að ganga á eignar- eða nýtingarrétt viðkomandi landeiganda. Það er mikilvægt að nefndin fari vel ofan í það í störfum sínum.

Hæstv. forseti. Ég ætla svo sem ekki að hafa mörg orð um þetta. Ég hef haft ákveðna fyrirvara hvað varðar þessa útvíkkun á netalögnum frá ósi og mér hefði fundist sjálfsagt að 2. mgr. 15. gr. núgildandi laga hefði haldið sér þannig að við værum sannanlega ekki að ganga á réttindi þeirra landeigenda sem um ræðir.

Við þingmenn förum vítt og breitt um landið, margir hér í salnum eru af landsbyggðinni sýnist mér, að undanskildum hv. þm. Pétri Blöndal, sem fer þó oft út á land, og við verðum að geta gert skil þeim breytingum á lögum sem við gerum hér. Ef þetta frumvarp verður að lögum verðum við að geta gert þeim landeigendum sem málið varðar grein fyrir því hvað hv. Alþingi er að meina með þeirri breytingu sem við leggjum hér til. Sannfæringar minnar vegna treysti ég mér ekki til þess og ég bið hv. landbúnaðarnefnd að fara mjög ítarlega ofan í 15. gr. frumvarpsins.

Fjármálaráðuneytið tekur ekki undir það að við séum að samþykkja hér löggjöf sem hugsanlega kveður á um bótaskyldu ríkisins. Með leyfi forseta er sagt:

„Ekki verður séð að frumvarp þetta, verði það óbreytt að lögum, leiði beint til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð.“

Hér er afdráttarlaust skorið úr um það af hálfu fjármálaráðuneytisins að um engar verulegar bótafjárhæðir verði að ræða samhliða afgreiðslu þessa frumvarps en ég hef efasemdir um það. Ég bendi á, líkt og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson nefndi í ræðu sinni, það vald sem Landbúnaðarstofnun er fengið í þessum lögum. Í 58. gr. stendur, í 2. mgr., með leyfi forseta:

„Landbúnaðarstofnun er heimilt að skipa eftirlitsmenn með því að bann við laxveiðum í sjó sé virt. Kostnaður við störf þeirra greiðist úr ríkissjóði.“

Nú veit ég ekki hvað forsvarsmenn Landbúnaðarstofnunar hafa hugsað sér í þessum efnum en við þekkjum þróun Fiskistofu, rétt eins og hv. þm. Guðjón Arnar hefur bent á, og ég tel mikilvægt að það komi skýrt fram í löggjöfinni að við ætlum okkur ekki að stofna einhvers konar rannsóknarlögreglu sem starfar vítt og breitt um landið. Við hljótum að treysta því fólki sem hefur umgengist þessa auðlind um áratugaskeið. Mér finnst þetta þó nokkuð opið hvað þetta varðar en ber að sjálfsögðu fullt traust til Landbúnaðarstofnunar í þessu verkefni sínu og tel að það sé mikilvægt að eitthvert eftirlit sé viðhaft. En það má ekki keyra um þverbak.

Hæstv. forseti. Ég hef með þessu gert grein fyrir þeim fyrirvara sem lýtur að 15. gr. laganna. Ég er mjög ánægður með þá vinnu sem hæstv. landbúnaðarráðherra hefur lagt í það frumvarp sem hér er til umræðu. Það fylgir því heilmikill fróðleikur, t.d. eru mörg dómafordæmi tilgreind o.s.frv. Frumvarpssmíðin er til fyrirmyndar, ánægjuleg lesning.

Ég tel mikilvægt að hv. landbúnaðarnefnd fari allítarlega ofan í þetta málefni og mér finnst engin ástæða til þess að þrengja réttindi landeigenda eins og 15. gr. í því frumvarpi sem hér er rætt hljóðar upp á. Ég sé enga ástæðu til þess. Hér er um að ræða fólk sem er upp til hópa með eina eða tvær netalagnir og veiðir nokkra göngusilunga á hverju sumri. Það er búið að takmarka aðgengi þessara landeigenda með því að stytta veiðitímann um helming. Það er bannað að veiða göngusilung við sjó frá kl. 8 á föstudagskvöldi til kl. 8 á þriðjudagsmorgnum en ef ganga á enn lengra í þeim efnum að takmarka réttindi bænda og annarra landeigenda hvað þetta snertir þá er ég því ekki samþykkur.

Ég tel því að það væri rétt að gera breytingar á 15. gr. en er annars sammála í öllum meginatriðum því frumvarpi sem hæstv. landbúnaðarráðherra hefur lagt fyrir þingið. Ég er sammála því að Alþingi á ekki með því að breyta 27. gr. laganna að fara út á þá braut að banna netalagnir í straumvatni með lögum. Ég tel að slíkt fordæmi sé varhugavert. Það mundi kosta ríkissjóð mikla fjármuni og auk þess ber okkur að virða þau réttindi sem bændur og aðrir landeigendur hafa haft áratugum saman. Ég tel farsælast að menn leysi þau ágreiningsmál eins og 27. gr. hljóðar upp á með almennum samningum.