132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[19:12]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er eftirtektarvert að langflestir þeir ræðumenn sem hér hafa talað í dag hafa beint athygli sinni og meginmáli að einni tiltekinni grein, þ.e. þeirri grein sem fjallar um netaveiðar í straumvatni. Það er líka eftirtektarvert að flestir þeir sem hér hafa talað virðast mjög ákafir stangveiðimenn eða áhugamenn um stangveiði. (Gripið fram í.) Ég sagði langflestir, hv. þingmaður.

Það er reyndar svo að þau rök sem hafa verið færð fram í dag um algert bann við netaveiði í straumvötnum eru að mörgu leyti og jafnvel flestu mjög skiljanleg vegna þess að það er búið að sýna fram á að mjög ríkir fjárhagslegir hagsmunir eru af stangveiði í straumvötnum. Það er þó augljóst að þau rök eiga ekki við öll straumvötn og það hefur reyndar einnig komið fram að ekki er hægt að stunda stangveiði í öllum straumvötnum. Ég hygg að það sé hægt að nefna Þjórsá sem dæmi um slíkt.

Gamalt máltæki segir, frú forseti, að fleira sé matur en feitt kjöt. Það er líka þannig að það eru fleiri gæði í lífinu en peningaleg gæði og ég ætla að leyfa mér að færa inn í umræðuna þau gæði sem netaveiðimenn í straumvötnum hafa af þeirri heimild sem þeir hafa í dag. Ég ætla jafnframt að benda á að ef bann verður lagt við netaveiði í straumvötnum er ekki einungis verið að leggja bann við nýtingu tiltekinna áa sem ekki er hægt að nýta til veiða á annan hátt, t.d. Þjórsár, sem ég minntist á áðan, heldur er verið að koma því á að þeir einir sem hafa nýtingarrétt á straumvatni, samkvæmt vatnalögum frá 1923, hafa ekki heimild til að veiða sér til matar nema að standa með stöng á bakkanum sem er ekki alls staðar gerlegt. Það eru til margar gerðir af straumvötnum á Íslandi, í mörgum þeirra er aðeins hægt að veiða í net og ekki er fræðilega mögulegt að koma upp neinni stangveiði að gagni.

Það er sem sagt leyfilegt að veiða í net í vötnum á Íslandi, það er leyfilegt að veiða í net út frá sjávarjörðum á Íslandi en það á ekki að vera leyfilegt að veiða í net í straumvatni. Ég vil að þetta sjónarmið komi fram í umræðunni.

Ég ætla líka að lýsa þeirri skoðun minni að það sé ástæða til að taka upp miklu meira eftirlit með laxveiðum í sjó en nú er gert. Ég vil því fagna ákvæðinu, sem er í 58. gr. þessa lagafrumvarps, um aukið eftirlit með veiðum í sjó.

Það ganga um það miklar sögur, í það minnsta sums staðar á landinu, að laxveiðar í sjó séu umtalsverðar. Í mín eyru hefur verið vitnað í tiltekinn mann sem segir að langbestu laxveiðimiðin í Skagafirði séu út af Þórðarhöfða. Þetta segir mér að það þarf að hafa eftirlit með laxveiðum í sjó. Þær eru bannaðar og þær verða bannaðar, sem betur fer. En það er í sumum tilfellum ekki nóg að hafa lög sem banna hlutina, það þarf að hafa ríkt eftirlit með því að lögin séu ekki brotin og það þarf að beita viðurlögum ef það er gert. Ég tel að þess hafi ekki verið gætt nægilega vel hér við land.

Ég vil einnig benda á að í 11. gr. lagafrumvarps þessa er eyðilegging á selalátrum leyfð. Það á að vísu að fá umsögn veiðifélags eða veiðiréttarhafa og umsögn Veiðimálastofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands en ég held að við séum á talsvert hættulegri braut þarna. Fyrir allnokkrum árum var skorin upp herör gegn sel hér við land fyrir tilstilli útgerðarmanna og fiskverkenda. Sett var á laggirnar svokölluð hringormanefnd sem gekkst í það að drepa sel í stórum stíl hér við land og ég hef heyrt ýmsar hryllingssögur um atganginn í því efni.

Grænlendingar hafa áhuga á að kaupa selskinn af Íslendingum og ég kynnti mér hvort hægt væri að nálgast selskinn hér á landi. Við þá eftirgrennslan mína kom í ljós að mjög lítið er til af selskinnum á Íslandi, ekki vegna þess að bændur hafi ekki áhuga á að nytja selinn, eins og fyrrum var gert, heldur vegna þess að það er orðið svo lítið af honum. Ekki veit ég nákvæmlega hvað satt er í þessu efni en með þetta í huga tel ég að það sé varhugavert að samþykkja slíka grein sem 11. gr. er. Ég held að við vitum ekkert allt of mikið um það hversu mikið er til af sel við Ísland og ég er þá að tala um landselinn sem Grænlendingar hafa áhuga á að kaupa af okkur. En selurinn er líka hlunnindi sem bændur hafa nýtt í tímans rás og selurinn er dýrategund sem við þurfum að hafa gát á.

Erindi mitt í þennan stól var fyrst og fremst að láta það koma fram að það er ekkert sjálfgefið að leggja algert bann við netaveiðum í straumvötnum við Ísland. Það er langfarsælast að reyna að fara samningaleiðina eins og fram hefur komið í ræðum fjölmargra í dag. Það kann að vera að ekki náist samkomulag við einhverja aðila hversu mikið sem boðið er og það er ef til vill vegna þess að í augum sumra eru fleira gæði en peningar, eins og ég gat um hér áðan.