132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[20:01]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við ræðum langþráð frumvarp til laga um lax- og silungsveiði. Við höfum beðið þess í þó nokkuð marga mánuði að það kæmi til meðferðar hér í þinginu. Það var boðað þegar haustið 2003 í sölum þingsins þegar háð var hörð rimma um innflutning á norskættuðum laxi eða laxahrognum og hvort leyfa ætti eldi á slíkum fiski í sjókvíum hér við land. Þá var háð snörp deila um það hvort svo ætti að verða eða ekki og þá kom einmitt til umræðu að þetta frumvarp til laga um lax- og silungsveiði, sem við höfum nú fyrir framan okkur, væri í undirbúningi í landbúnaðarráðuneytinu. Loksins er það komið. Það er runninn upp mars 2006 og loksins er þetta frumvarp komið til meðferðar í þinginu.

Ég sagði í andsvörum við upphaf umræðunnar í dag að ég teldi að nú væri best að fara sér hægt og af yfirvegun. Ég benti á það að frumvarpið kæmi seint inn í þingið, mjög seint á þingvetrinum. Það eru ekki margir dagar eftir. Þingið hættir störfum óvenjusnemma nú í vor, í byrjun maí, vegna sveitarstjórnarkosninganna 27. maí. Ég vil ítreka það, virðulegi forseti, að við vöndum vel til verka og tökum þessi frumvörp öll, þetta eru ein fimm frumvörp þegar allt er talið, til meðferðar í landbúnaðarnefnd, þar sem ég á sæti; fáum umsagnir nú á vordögum, skoðum málið í sumar og landbúnaðarnefnd taki síðan til starfa aftur á haustdögum og við stefnum að því að þessi frumvörp verði afgreidd héðan frá Alþingi sem lög fyrir lok þessa árs. Það hygg ég, virðulegi forseti, að væri skynsamlegast. Hér er um að ræða afskaplega mikilvæg lög þar sem tekið er á öllum okkar veiðimálum í ferskvatni, ekki bara lax- og silungsveiði heldur líka fiskrækt, fiskeldi, fisksjúkdómum og tilhögun Veiðimálastofnunar, sem ég tel hiklaust að sé ein merkasta rannsóknarstofnun landbúnaðarins og mikilvægt að hlúa vel að henni.

Virðulegi forseti. Það vekur hjá mér ljúfsárar minningar að ræða þessi lög því að gömlu lax- og silungsveiðilögin frá 1970, sem nú eru að renna sitt skeið á enda, voru fyrsti lagatexti sem ég las á ævinni. Það var fyrir rúmum 20 árum þegar ég var skólapiltur við Bændaskólann á Hólum í Hjaltadal og lagatextinn var hluti af námsefni okkar. Lax- og silungsveiðilögin frá 1970 voru af mörgum ástæðum dregin fram sem dæmi um afskaplega merkilega og framsýna löggjöf. Þar hefðu menn til að mynda komist að þeirri niðurstöðu að banna netaveiðar á laxi í sjó. — Ég held að Íslendingar hafi verið fyrstir allra þjóða að banna veiði á laxi í sjó. — Þar væri líka að finna hið merkilega fyrirkomulag með veiðifélögin sem hefur skapað góða sátt um nýtinguna á þessum verðmætu auðlindum, þ.e. laxveiðiánum og vötnunum, um margra áratuga skeið.

Þessi lög eiga upphaf sitt allt til 1932, ef ég man rétt, og jafnvel enn lengra aftur í tímann. Mig minnir að það komi allt saman fram í greinargerð með frumvarpinu sem ég las fyrr í morgun. En þessi lagasmíð er með öðrum orðum, og ég vil ítreka það, ákaflega merkileg og á margan hátt má kannski jafna henni við önnur lög, sem við töluðum um í síðustu viku, þ.e. vatnalögin frá 1923 sem líka voru sett af mikilli visku og framsýni enda hefur sá lagabálkur einnig dugað mjög vel.

En það er alltaf þannig, virðulegi forseti, að það kemur að því að við þurfum að endurskoða lögin okkar, fara yfir þau og breyta þeim. Tímans hjól snýst og það var kominn tími til þess að endurskoða vatnalögin. Ég hef lýst mig alveg sammála því, þó að ég hafi ekki verið sammála niðurstöðunni sem varð eftir þá endurskoðun, og ég tel líka að það sé kominn tími til að endurskoða lögin um lax- og silungsveiði.

Ég er mikill áhugamaður um lax- og silungsveiði þótt ég sé ekki veiðimaður. Ég hef aldrei stundað veiðar á laxi og silungi. Ég á engra hagsmuna að gæta í þessu á neinn hátt en mér finnst þetta engu að síður afskaplega áhugavert. Kannski er þetta líffræðilegur áhugi, ég veit það ekki. Sennilega er það líka áhugi á skemmtilegri náttúruauðlind sem við höfum nýtt af mikilli skynsemi í áranna rás. Ég hef iðulega í störfum mínum sem þingmaður flutt mál sem varða þessa auðlind, verið með þingsályktunartillögur og fyrirspurnir varðandi urriðann í Þingvallavatni svo dæmi sé tekið. Ég hef borið fram þingsályktunartillögu ásamt hv. þingmönnum Sigurjóni Þórðarsyni, Jóni Bjarnasyni og Össuri Skarphéðinssyni um það að fara skuli út í samstillt átak stjórnvalda og hagsmunaaðila á borð við veiðiréttareigendur, veiðimenn og aðila í ferðaþjónustu, gjarnan með fjárhagslegri þátttöku hagsmunaaðila, til að efla nýtingu á silungi hér á landi og þá sérstaklega ættum við að reyna að nýta okkur það sem ég tel vera vannýtt sóknarfæri í stangveiði hér á landi.

Það er alveg rétt, sem komið hefur fram í fjölmörgum ræðum fyrr í dag, að stangveiðin og iðnaðurinn og þjónustan í kringum hana skilar mjög miklum verðmætum á hverju ári. Með frumvarpinu sem hér liggur fyrir er ágætissamantekt sem var gerð í fyrra. Hún er lögð fram sem fylgiskjal og ber titilinn Lax- og silungsveiði á Íslandi. Efnahagsleg áhrif og líffræðileg staða auðlindarinnar. Þessi samantekt er unnin af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og Veiðimálastofnun. Þar kemur einmitt fram að verðmætin eru mjög mikil af lax- og silungsveiðum. Á það hefur verið bent í umræðum fyrr í dag og það er í sjálfu sér óþarfi fyrir mig að fara aftur yfir alla þá umræðu og tíunda það sem þar hefur komið fram.

Mikið hefur verið rætt um eina grein frumvarpsins sem hér liggur fyrir, þ.e. 27. gr., ef ég man rétt, sem fjallar um veiðitæki og veiðiaðferðir í straumvatni. Talað hefur verið fyrir því að það eigi hreinlega að nota tækifærið núna og setja lögbann á það að menn fái að nota net til veiða á laxi í straumvatni. Formaður minn, Guðjón Arnar Kristjánsson, flutti ræðu áðan og mér fannst hann orða afstöðu okkar í Frjálslynda flokknum með skýrum hætti. Ég reikna með að sú ræða verði tekin, prentuð út og jafnvel notuð til viðmiðunar í því starfi sem bíður okkar sem sitjum í landbúnaðarnefnd þegar við förum að skoða þessi lög. Guðjón Arnar hitti naglann á höfuðið, ef svo má segja, og ég lýsi því yfir að ég er alveg sammála hverju orði sem hann sagði þar varðandi það hvort banna ætti lagnetaveiðar á laxi í straumvatni.

Ég hef sjálfur velt þessu svolítið fyrir mér í þó nokkurn tíma. Ég minni á að á sínum tíma kom út skýrsla á vegum Veiðimálastofnunar sem bar titilinn Fiskstofnar vatnasvæðis Ölfusár/Hvítár, seiðabúskapur, veiðinýting og fiskræktarmöguleikar. Þetta var vorið 2004, fyrir tveimur árum. Höfundar skýrslunnar voru fiskifræðingarnir Magnús Jóhannsson og Sigurður Guðjónsson. Þeir lögðu mat á það hver væri hugsanlegur ávinningur af því að stöðva netaveiðar á vatnasvæði Ölfusár og Hvítár. Ég fór í framhaldi af þeirri skýrslu að velta þessu fyrir mér og bar þá m.a. fram fyrirspurn til hæstv. landbúnaðarráðherra sem hann að sjálfsögðu svaraði. Ég var að velta því fyrir mér þá, á grundvelli niðurstaðna þessarar skýrslu, hvort ekki væri með einhverjum hætti hægt að hætta netaveiðum.

Ég hef síðan hugsað það mál og komist að niðurstöðu. Ég get að hluta til tekið undir þau sjónarmið að hugsanlega sé rétt að hætta þessum veiðum en við verðum að hafa í huga að ávinningurinn af því er ekkert endilega svo mikill. Reynslan úr Borgarfirði hefur sýnt að þó að netaveiðum sé hætt er ekki sjálfgefið að þeir laxar sem ekki veiðast í netin veiðist þá alfarið á stöng í hliðarám við þær ár þar sem netaveiðarnar eru stundaðar. Það má færa rök fyrir því að ef netaveiðunum yrði hætt mundu hugsanlega aðeins um 700 laxar af þeim um það bil 3.000 löxum sem veiðast árlega í net veiðast á stöng á því svæði sem kallað er vatnasvæði Ölfusár og Hvítár. Það er því ekki alveg hægt að setja samasemmerki þarna á milli. En samt má kannski segja að þessir 700 laxar, ef við erum að tala um þá tölu, mundu kannski skila tekjum á bilinu 14–21 millj. kr. Þetta var a.m.k. það sem ég komst að á sínum tíma.

Á það hefur verið bent, og það er röksemd sem verður að taka tillit til, að hér er verið að tala um eignarrétt bænda, nýtingarrétt bænda, rétt bænda til að nýta auðlind sem þeir hafa nýtt í mjög langan aldur og löngu áður en menn fara í einhverjum mæli að veiða lax á stöng á þessum svæðum. Það er ekki hlutverk löggjafans, það er ekki hlutverk ríkisins, að ganga í það verk að banna þá nýtingu. Það hlýtur að vera verkefni sem snýr að einkaaðilum, einkaframtakinu eins og ég vil kalla það, þ.e. þeim sem eiga nýtingarréttinn á annað borð. Þetta snýr að bændum og þeim sem hugsanlega hefðu hag af því að þessum veiðum yrði hætt. Það hljóta að vera þeir sem standa að veiðifélögunum, þ.e. stangveiðimenn. Það heyrir upp á þá að greiða þann kostnað sem hlýtur að verða af því ef það tekst að fá þessa bændur til að hætta að veiða laxinn í net.

Þetta kemur ríkinu ekkert við, þetta á ekki að koma okkur við, þetta á ekki að koma löggjafarvaldinu við. Einkaframtakið á sjálft að leysa þessi mál. Það er mín skoðun eftir að hafa legið yfir þessu, eftir að hafa skoðað þetta, eftir að hafa lesið allar þessar skýrslur, velt þessu fyrir mér þá er það mín niðurstaða að þannig eigi það að vera. Ég fæ ekki betur séð en þetta hafi verið gert í Borgarfirði með ágætum árangri, a.m.k. höfum við ekki heyrt af miklum deilum um það. Við höfum ekki heyrt af því að það hafi farið illa. Ef ávinningurinn er svona mikill af því að hætta netaveiðum hljóta að finnast leiðir til þess að leysa það á milli þeirra aðila sem deila um þessar veiðar. Flóknara þarf þetta mál ekki að vera. Þetta er mín niðurstaða.

Ég vil svo nota tækifærið til að mótmæla þeim málflutningi sem hér hefur komið fram í dag varðandi þessar netaveiðar. Hér hefur bændum á Suðurlandi nánast verið lýst sem hálfgerðum villimönnum, talað um að menn séu að draga á land heilu netatrossurnar fullar af laxi og þetta sé veiðiskapur sem sé gersamlega óverjandi hvernig sem á það er litið. Mér finnst mjög hallað á bændur, dugnaðarfólk sem ekki gerir annað en að nýta þær náttúruauðlindir sem þeim tilheyra. Mér finnst það alveg óþarfi að menn komi hér í ræðustól haldandi fram slíkum fullyrðingum því þetta er einfaldlega rangt. Það er líka rangt að setja hlutina þannig fram að ef netaveiðum yrði hætt á vatnasvæði Ölfusár og Hvítár mundu allir þeir laxar sem ekki veiðast í netin sjálfkrafa veiðast á stöng. Það er ekki þannig. Reynslan sýnir það.

En ég segi enn og aftur: Ef stangveiðimenn eða aðrir hafa áhuga á því að fá bændur til að hætta netaveiðum þá hljóta þeir að geta leyst það með því að greiða þeim fyrir. Sú hlýtur að verða niðurstaðan. Það á ekki að vera hlutverk ríkisins að greiða herkostnaðinn af slíku og það á alls ekki að vera hlutverk okkar sem erum á þinginu, okkar sem förum með löggjafarvaldið, að setja lög sem hugsanlega munu valda ríkinu stórkostlegri skaðabótaskyldu, algerlega ófyrirséðri skaðabótaskyldu, sem í ofanálag mundi skapa mjög hættulegt og varasamt fordæmi.

Ég vil leggja áherslu á það, virðulegi forseti, að við í Frjálslynda flokknum leggjum mikinn þunga í það að verja það að bændur þessa lands haldi rétti sínum til nýtingar náttúruauðlinda. Við höfum barist fyrir málstað eigenda sjávarjarða. Veiðirétturinn hefur verið tekinn af þeim algerlega bótalaust. Það var gert þegar fiskveiðistjórnarlögin voru sett á sínum tíma. Við getum alveg tekið undir það að hér eigi að setja skýrar reglur um nýtingarrétt bænda á öðrum auðlindum, til að mynda vatni. Hér erum við að tala um nýtingarrétt en ekki eignarrétt og við tökum að sjálfsögðu undir það að bændur eigi að hafa nýtingarrétt á laxi og silungi sem er á þeirra landi. Heilt á litið viljum við verja þennan rétt bænda. Ef einhverjir aðilar vilja kaupa þann rétt upp eða leigja hann af bændum til einhvers tíma þá er það, og það er kjarni míns máls, einkaframtakið sem á að sjá um það. Frjálsir menn í frjálsu landi eiga að geta gert samninga sín á milli um þau viðskipti. Það er ekki hlutverk okkar alþingismanna að setja lög um slíka hluti.