132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[20:17]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka mínum guði og mínum sæla fyrir það að hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson hafði ekki nákvæmlega þessa skoðun á séreignarréttinum þegar við vorum hér saman fyrir viku að ræða vatnalögin. (Gripið fram í: Við vorum að tala um nýtingarrétt …) Satt að segja fannst mér sem hv. þingmaður túlkaði séreignarrétt bænda og landeigenda mjög rúmt.

Þó að bændur eigi sín lönd og eigi réttinn til veiða í því vatni sem fyrir landi þeirra er þá er það samt sem áður svo að fiskstofnarnir eru sameiginleg auðlind sem fer víða og það er með engu móti hægt að halda því fram að einhver einn geti slegið eignarrétti sínum á þá. Jafnvel hæstv. landbúnaðarráðherra gerir það ekki. Hann iðkar það sjálfur að takmarka þennan rétt með reglugerðum sem beinlínis eru settar til að vernda fiskinn gegn ofveiði og til að koma í veg fyrir að hið hóflausa einkaframtak, sem hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson lýsti hér áðan, gangi af stofninum dauðum.

Ástæðan fyrir því að til eru reglur, sem hæstv. landbúnaðarráðherra setur í krafti þessara laga, er einmitt sú að veiðirétturinn er takmarkaður, hann er ekki alger. Bóndi eða landeigandi sem á vatn fyrir landi sínu getur ekki nytjað það með þeim hætti sem hann vill. Ef hann hefði fullt vald á því gæti sú staða komið upp að ósvífnir menn og gírugir sem ekki hefðu áhuga á því að viðhalda stofninum mundu ganga fram af honum. Það er þess vegna, eins og hæstv. landbúnaðarráðherra gat um í ræðu sinni fyrr í dag, að lög og hefðarreglur hafa verið í gildi allt frá landnámi, sem sumir segja að hafi jafnvel flust hingað til lands með landnámsmönnunum úr Noregi. Landnámsmennirnir drógu úr líkum á því að menn gengju of harkalega fram gagnvart stofnum. Þó að ég hafi fullan skilning á því að nauðsynlegt sé að ná sátt í þessu máli er ég ekki viss um að einkaframtakið villt og galið, liggur mér við að segja, sé best til þess fallið. Við þurfum alltaf lög og reglur til að takmarka sókn í takmarkaðar auðlindir.

Sú auðlind sem við höfum verið að tala um hefur verið í hættu. Sem betur fer hefur vegur hennar vaxið nokkuð á síðustu árum. Það er ekki síst vegna forgöngu Íslendinga. Íslendingar, eins og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson rakti svo ágætlega í ræðu sinni, settu á sínum tíma nánast algert bann við laxveiðum í sjó. Laxveiðar í sjó voru að vísu leyfðar, ef ég man rétt, alveg fram á síðasta áratug með sérstökum lögum þó einungis hafi þá verið fimm jarðir á landinu sem máttu nytja þann rétt — það vill svo til að ég var að hálfu leyti alinn upp á einni þeirra fimm jarða þannig að svolítið þekki ég til þess. Áratugum saman dvínaði hins vegar laxastofninn í Norður-Atlantshafinu og menn voru ekki alveg vissir á því hvað um var að ræða. Hugsanlega var þar um að ræða einhvers konar mengun og menn leiddu getum að því að einhvers konar þrávirk lífræn efni hefðu safnast fyrir í Norðurhöfum af því að þau væru kuldasækin.

Menn leiddu líka getum að því með nokkrum rökum að vaxandi veiðiþjófnaður, sérstaklega í löndum eins og Írlandi og Englandi, þar sem það var íþrótt þeirra sem fátækastir voru og lifibrauð öldum saman að „stela“ að hætti Hróa hattar frá hinum efnuðu, landeigendunum, og á síðustu öld keyrði nokkuð úr hófi. Ég hef rifjað það upp hér að sjálfur var ég eitt sinn staddur einmitt í erindum laxa á Írlandi og lenti þar óvart í kröfugöngu veiðiþjófa, manna sem þúsundum saman streymdu út á götu til að verja þann rétt, sem ríkisstjórn Írlands ætlaði að taka af þeim, að stela að næturlagi, þ.e. að ganga í vötn sem að fornu voru álitin eins konar almenningur. En sú barátta sem leiddi til lagasetningarinnar á Írlandi og reyndar í fleiri löndum var ekki síst vegna þrýstings sem var hafinn af Orra Vigfússyni og þeim mönnum sem svo ágætlega störfuðu með honum.

Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta, frú forseti. Það er hægt að leiða sterk rök að því að laxastofnar við Norður-Atlantshaf, og sérstaklega á nyrstu slóðunum, séu á sumum svæðum á uppleið í kjölfar þess að tekið var fyrir veiðar á laxi í sjó og ég skil því vel að þeir sem unna þessum forna konungi straumvatna skuli vilja beita sömu aðferðum til að stemma stigu við niðurgangi hans í fersku vatni á landi.

Ég er þeirrar skoðunar í prinsippinu, eins og ég sagði fyrr í dag, að ekki eigi að viðhafa netaveiðar í straumvötnum. Nú er öldin allt önnur en þær fyrri að því leyti til að þessi fiskur er til í miklu minna mæli en áður. Þegar þau lög voru sett sem hæstv. landbúnaðarráðherra talaði um við upphaf þessa þings, 930, mátti leiða getum að því að vötn væru flest full af fiski. Það hafði aldrei verið gengið í þau með þeim ákafa sem síðar varð. En mjög hefur dregið úr viðgangi þessara stofna á síðustu öldum. Þess má geta að í kjördæmi þeirra tveggja þingmanna, hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar og hæstv. landbúnaðarráðherra, sem stundum er jafnað við biskup eða erkiklerk, voru það einmitt biskuparnir sem höfðu veiðirétt svo víða og nýttu hann af varkárni, nýttu hann alls staðar af varkárni vegna þess að þeir vissu að menn eiga að ganga vel um gjafir guðs.

Ég tel sem sagt að það sé góð grundvallarregla að stefna að því að netaveiðar á laxi í straumvötnum verði lagðar af. Hugsanlega er það mjög erfitt. Ég held hins vegar að með breyttum viðhorfum sé það réttlætanlegra nú en áður að ráðast í einhvers konar lögboð ef þurfa þykir. Ástæðan er sú að Íslendingar hafa nú á síðustu árum gerst aðilar að alls konar sáttmálum sem leiða til þess að þeir þurfa að axla ákveðna ábyrgð. Þeir þurfa að standa ábyrgir gagnvart alþjóðasamfélaginu um vernd tegunda sem eru í hættu og líka vernd stofna sem eru í hættu, og vísast er hægt að færa rök fyrir því að sumir laxastofnar séu í hættu.

Sá stofn sem hefur aðallega verið til umræðu hér, og hv. þingmaður reifaði ágæta skýrslu hér áðan, hefur kannski vegna eðlis árinnar sem hann gengur upp í og tímgast í verið í hvað mestri hættu. Það sem ég á við, frú forseti, er að náttúran sem umlykur hann er öðruvísi en víða annars staðar að því leyti til að vötnin þarna hlaupa stundum. Ef ég man rétt voru það ég og hæstv. landbúnaðarráðherra sem véluðum um það fyrir nokkrum árum í mjög merkilegri nefnd, sem við eigum báðir sæti í og kennd er við helgistað þjóðarinnar, Þingvelli, hvort sú nefnd ætti að beita sér fyrir því að gerðar yrðu ákveðnar ráðstafanir til að vatnið sem Hvítáin á upptök sín í hlypi ekki reglulega. En rannsóknir sýna að það vatn hefur hlaupið fram á 15–20 ára fresti og ekki nema örfá ár frá því að það hljóp síðast.

Þegar það gerist leiðir það til þess að litlu er eirt í ánni, ungviðið tapast og glutrast niður og heilu kynslóðirnar hverfa úr því straumvatni. Hrygningarstaðir breytast og framburðurinn leiðir til þess að þar sem laxar, sem í hafi voru, gengu áður til að tímgast meðan á ósköpunum stóð fundu kannski ekki neina hrygningarstaði þegar þeir komu aftur. Ekki frekar en Skálabrekku-urriðinn þegar hann kom aftur á sínar gömlu hrygningarslóðir þar sem heita Urriðaálar fyrir utan grjóthólmann undan Skálabrekku þegar bændur höfðu fellt Öxará niður í Almannagjá eins og sagt er í fornum sögum og ég trúi álíka vel og Biblíunni og jafnvel töluvert betur af því að ég er kannski ekki bókstafstrúarmaður á hana. Ég nefni þetta vegna þess að laxastofninn í þessu árkerfi er einfaldlega miklu viðkvæmari en víðast annars staðar.

Þetta var það sem ég vildi aðallega leggja til þessarar umræðu. Ég hef ekki mikla nennu til að standa í skæklatogi við hæstv. landbúnaðarráðherra um þá grein sem stallsystir mín, hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir, reifað svo ágætlega hér áðan og varðar seli. Hér áður fyrr þegar ég gekk til sela ásamt því að stunda laxveiðar í sjó, í net, hugsaði ég töluvert öðruvísi en ég geri í dag. Þá var kapp veiðimannsins slíkt að því fleiri selir sem veiddir voru því betri daga áttu þeir sem veiðina stunduðu. Nú er það hins vegar svo að ég staldra við þegar ég sé grein eins og 11. gr. í þessu frumvarpi þar sem beinlínis er gefin opin heimild á það að eyða sellátrum í grennd við ósa. Ég veit vel að það er kannski ákveðin þverstæða að segja þetta eftir að hafa haldið ræðu um það hve viðkvæmir laxastofnar eru. En samt sem áður tel ég að það þurfi mjög að slá í gadda í lögum allar heimildir til þessa. Þá er ég aftur að horfa til þeirra alþjóðlegu skuldbindinga sem við höfum axlað.

Nú er það þannig að selurinn á hvergi heima í íslensku stjórnkerfi. Það er meira að segja starfandi einhvers konar nefnd sem heitir hringormanefnd og gæti samkvæmt skilgreiningu eiginlega talist eins konar örráðuneyti því það er enginn yfir henni. Hún siglir frí í stjórnkerfinu. Ríkið greiðir peninga til að drepa sel en það er enginn sem rannsakar það hvernig nefndin vinnur, hversu marga seli hún drepur — og það sem verst er, enginn veltir því fyrir sér hvaða áhrif þetta hefur á selastofnana.

Hér við land eru tvær tegundir sela, landselur og útselur. Ég hef áður tekið málefni þeirra smælingja upp í þessum sal. Nú er staðan þannig að báðar þessar tegundir eru við það að hrynja. Það finnst mér vera nokkuð alvarlegt mál. Ég ímynda mér að ef það væri einhver stofnun á Íslandi, eitthvert ráðuneyti, sem hefði vald yfir ákvörðunum um nýtingu þeirra yrðu báðar þessar tegundir þegar í stað settar á válista. En engum ber, lögum samkvæmt, að hafa eftirlit með þeim og engum ráðherra ber að taka í taumana. Ég vil því nota þetta tækifæri til að segja að ég staldra a.m.k. við greinar eins og þessar sem mér finnst eiginlega gefa óútfyllt leyfi til að eyða sellátrum, ekki bara við ár heldur á ósasvæðum og ég er ekki alveg viss um það hversu þröng og ítarleg skilgreiningin á ósasvæðum er.

Aðeins að lokum, frú forseti, þá dáist ég alltaf að hugkvæmni hæstv. landbúnaðarráðherra, sem við vitum að hefur unun af íslensku máli og gerir sér far um að misþyrma því alls ekki, en ég velti því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra hafi lesið sína eigin skilgreiningu á vatnsfalli. Samkvæmt greininni er það rennandi vatn í afmörkuðum farvegi sem rennur undan þyngdaraflinu niður á við. Má draga þá ályktun af því að í hinu háa landbúnaðarráðuneyti telji einhver embættismanna, hugsanlega ráðherrann sjálfur, að til sé straumvatn sem rennur undan þyngdaraflinu upp á við? Það eru svona hlutir sem ég sé stundum í frumvörpum sem fara dálítið í taugarnar á mér og mér finnst að menn seilist um hurð til lokunnar þegar þeir koma með skilgreiningar eins og þessa. Síst á það að vera hæstv. landbúnaðarráðherra sem alltaf leikur sér við íslenskt mál eins og konfekt sem hann ber svona á borð fyrir hið háa Alþingi.