132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Varnir gegn fisksjúkdómum.

596. mál
[21:34]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður þarf ekkert að vera hissa á því þó að landbúnaðarráðherra hlusti á stjórnarandstöðuna. Hún gegnir veigamiklu hlutverki og er fundvís á alla þá veikleika sem maður býr yfir og varar mann oft við hættum (Gripið fram í.) með hreinskilinni umræðu. Gagnrýni er öllum mikilvæg. Hún er mikilvæg í pólitík, að maður taki vel gagnrýni innan síns flokks, að ég tali ekki um gagnrýni pólitískra andstæðinga sem er mjög mikilvægt í allri stjórnmálaumræðu að eigi sér stað, málfrelsi. Auðvitað sjá betur augu en auga og stjórnarandstaðan hefur sambönd og þekkingu þannig að ég virði hana mikils og hef í störfum mínum oft hlustað á rök stjórnarandstæðinga, (Gripið fram í.) ekkert síður en samherjanna. Það er auðvitað rétt að virða það og þakka, eins og þá málefnalegu umræðu sem hér hefur farið fram í dag.

Ég tek undir með hv. þingmanni hvað það varðar að veiði á Íslandi er að aukast. Þessi auðlind okkar, laxveiðiárnar, er dýrmætari og dýrmætari með hverju árinu, bæði fyrir landsbyggðina, fyrir þjóðina og auðvitað eigendur jarðanna sem byggja þetta land. Það er mikilvægt að um það gildi góð löggjöf og réttlát þar sem þessi auðlind býr við þau góðu skilyrði að hún nýtist vel eigendum sínum. Hún nýtist líka vel sem þjóðarauður o.s.frv. Þetta vil ég allt saman að heppnist hér um leið og ég sé eftir fiskeldinu sem hv. þingmaður grætur ekki yfir. Það er ekki karlmannlegt að gráta að vísu en allar tilfinningar (Forseti hringir.) eiga rétt á sér.