132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Veiðimálastofnun.

612. mál
[21:39]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 897, sem er 612. mál á þessu þingi, en um er að ræða frumvarp til laga um Veiðimálastofnun. Frumvarp þetta er eitt fjögurra fylgifrumvarpa með frumvarpi til laga um lax- og silungsveiði og hef ég komið að umræðu um það fyrr í dag.

Með frumvarpi þessu er hlutverk stofnunarinnar betur skilgreint en áður var og það fært nær því sem það í raun og veru hefur verið síðustu árin. Í frumvarpinu er einnig gerð sú breyting að stjórn stofnunarinnar er lögð af en margsinnis hefur verið á það bent, m.a. af Ríkisendurskoðun, að stjórnsýslulega fari illa saman að hafa stjórn í ríkisstofnunum sem heyra undir beint boðvald ráðherra. Erfiðleikar geta skapast þegar slík stjórn og ráðherra vilja fara ólíkar leiðir. Í staðinn er lagt til að ráðgjafarnefnd verði stofnuð til að góð tengsl haldist við hagsmunaaðila þá sem stofnunin starfar með.

Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar með frumvarpinu og athugasemda með því.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbúnaðarnefndar.