132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Veiðimálastofnun.

612. mál
[21:41]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta frumvarp til laga um Veiðimálastofnun kemur fyrir landbúnaðarnefnd og þar getum við farið ítarlega yfir einstaka þætti þess.

Ég vil að svo komnu máli spyrja hæstv. ráðherra um hlutverk Veiðimálastofnunar sem ég tel mjög mikilvægt, þetta eftirlitshlutverk og rannsóknarhlutverk og að safna grunngögnum um ferskvatn.

Það stendur í 1. lið 4. gr., með leyfi forseta, að hlutverk Veiðimálastofnunar sé m.a. „að afla með grunnrannsóknum alhliða þekkingar á nytjastofnum ferskvatns og lífríkis þeirra og miðla upplýsingum þar um“.

Ég hef litið svo á að það þyrfti að safna upplýsingum um lífríki ferskvatna en ekki lífríki fiskanna eða nytjastofnanna þó að það sé mikilvægt líka. Ég hef litið svo á að hlutverk Veiðimálastofnunar væri einmitt að afla alhliða þekkingar, grunngagna um lífríki ferskvatns eða ferskvatna, hvort sem það eru ár eða vötn eða vatnasvæði. Ég árétta það. Einnig það mikla hlutverk sem ætti að koma þarna fram, rannsóknar- og eftirlitsskylda með líffræðilegum fjölbreytileika í lífríki ferskvatna. Við erum aðilar að samningi um varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika og það er einmitt í ferskvatninu sem það skiptir svo miklu máli að við fylgjumst nákvæmlega með líffræðilegum fjölbreytileika, hvort við skerðum hann með einhverjum aðgerðum okkar eins og við þekkjum.