132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Veiðimálastofnun.

612. mál
[22:10]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason spyr um fjárhag Veiðimálastofnunar. Sú umræða er auðvitað ekki hér í gangi því að hún fór fram undir fjárlagaumræðu í haust. Ég get samt upplýst hv. þingmann um að Veiðimálastofnun á vissulega í erfiðleikum, verkefni hafa því miður minnkað og þar hefur hlaðist upp talsverður fjárhagsvandi. Það er verið að fara yfir hann í landbúnaðarráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu með Veiðimálastofnun og ég vona að það skýrist innan tíðar. Ég get ekki meira um þetta sagt á þessari stundu, hv. þingmaður, en tek undir ræðu hv. þingmanns um mikilvægi stofnunarinnar og hið stóra hlutverk sem hún gegnir hér til að fylgjast með náttúru þessa lands og þeirri dýrmætu auðlind sem lax- og silungsveiði er.