132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Veiðimálastofnun.

612. mál
[22:11]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki sammála hæstv. ráðherra um að verkefni stofnunarinnar hafi dregist saman. Það sem hefur gerst er að ýmsum sérgreindum verkefnum sem hefur verið greitt sérstaklega fyrir hefur kannski tímabundið fækkað. Þetta sýnir hversu hættulegt það er að svona mikilvægar rannsókna- og eftirlitsstofnanir séu háðar fjármögnun einstakra tímabundinna verkefna. Ég er þeirrar skoðunar að ef eitthvað er hafi hlutverk, verkefni og þörf fyrir krafta Veiðimálastofnunar aukist, og muni aukast frekar. Það er þess vegna ekki rétt að verkefni hennar sem slíkrar hafi minnkað, eða þörfin, þó svo að einstökum verkefnum sem hún hafi fengið greitt fyrir hafi fækkað einmitt nú, sem betur fer út af því að verið er að draga saman þessar stórvatnsaflsvirkjanir.

Þá komum við líka aftur að því sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom inn á og við höfum rætt fyrr í dag, að það voru greiðslur í Fiskræktarsjóð sem þessar vatnsaflsvirkjanir og aðrar sem höfðu nýtingu af vatninu áttu að greiða í hann til að standa undir og byggja upp grunnrannsóknir og þekkingu á þessu sviði varðandi lífríki vatnanna. Þar skortir töluvert á að því sé fylgt eftir eins og var kannski upprunalega gert ráð fyrir og hefur verið gert ráð fyrir lengst af í tekjugrunni Veiðimálastofnunar.

Þó að ráðherra geti ekki fylgt þeim lögum eftir um greiðslur í Fiskræktarsjóð eins og til var stofnað má það ekki bitna á stofnuninni eins og það gerir núna þannig að hún fái ekki það fjármagn sem hún þarf vegna þess að þarna sé (Forseti hringir.) torvelt að framkvæma gildandi lög um Fiskræktarsjóð.