132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Fiskrækt.

613. mál
[22:17]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hnýt um ákvæði til bráðabirgða sem er greint frá á bls. 5 í frumvarpinu þar sem talað er um að frá gildistöku laganna til ársins 2010 skuli starfa samráðsnefnd um framkvæmd þessara laga og síðan stóra lagabálksins um lax- og silungsveiði sem við töluðum um fyrr í dag, laganna um Veiðimálastofnun sem hæstv. ráðherra mælti fyrir áðan, laga um eldi vatnafiska og laga um varnir gegn fisksjúkdómum. Mér sýnist að þessi samráðsnefnd eigi einhvern veginn að sjá um, ef ég skil þetta rétt, að samkeyra öll þessi lög, tilkeyra vélina ef svo má segja og fá þetta dæmi allt saman til að ganga upp.

Að þessari nefnd eiga að koma ótal aðilar, hvorki fleiri né færri en 10 fulltrúar úr hinum ýmsu áttum, veiðifélögin, stangveiðifélögin, fiskeldisstöðvarnar, fisksjúkdómanefnd, Veiðimálastofnun, Landbúnaðarstofnun, Fiskistofa, umhverfisráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti. Allir þessir aðilar eiga að koma að þessu og síðan einn nefndarmaður sem er þá tilnefndur af hæstv. ráðherra sem um leið er formaður nefndarinnar. Ég velti fyrir mér hvort hæstv. ráðherra hafi einhvern lúmskan grun um að þessi lög séu kannski ekki nógu góð þegar upp er staðið, að hann þurfi að hafa á ákveðinn varnagla og búa til eins konar björgunarsveit til að sjá til þess að ekki fari illa, að þetta fari ekki allt saman í hönk þegar kemur að framkvæmd allra þessara laga.

Ég veit það ekki, ég spyr bara og mér þætti vænt um að fá svar við því hjá hæstv. ráðherra. Gætum við jafnvel átt von á því, og væri hugsanlega skynsamlegt, að sett yrði inn einhvers konar endurskoðunarákvæði í öll þessi lög þannig að þau yrðu tekin til endurskoðunar eftir, segjum, tvö ár og þannig lagfærð ef með þyrfti?