132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Fiskrækt.

613. mál
[22:20]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég hef sagt hér fyrr í dag held ég að þessi löggjöf sé á margan hátt mjög vel undirbúin og mjög vel unnin. Í sjálfu sér er ég ekki hræddur við það en mönnum hefur samt þótt mikilvægt að þegar svona stór og mikilvæg löggjöf sem heldur utan um svo dýrmæta auðlind er í burðarliðnum sé skynsamlegt að hafa starfandi ákveðna samráðsnefnd, eins og ég fór yfir í dag, þar sem allir þeir aðilar sem hagsmuna eiga að gæta og að þessu koma komi saman og fylgist með hvernig löggjöfin virkar. Þetta er bara til upplýsinga og varðveislu á reynslunni og svo auðvitað til þess að grípa þá til þess að skoða ef ágallar koma í ljós, sem ég sé auðvitað enga fyrir.

Þetta er kannski á margan hátt nýnæmi í lagasetningu en málaflokkurinn er stór og vandmeðfarinn og margt í kringum hann er umdeilt þannig að ég held að það sé bara skynsamleg niðurstaða að hafa slíka samráðsnefnd starfandi núna um hríð.