132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Fiskrækt.

613. mál
[22:29]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef staðið í þeirri trú að fiskeldi sem fer fram á landi heyri undir landbúnaðarráðherra. Þegar ég las þetta frumvarp las ég það með þeim gleraugum og sé líka í skilgreiningunum að hér er fjallað um dýr sem ekki lifa eðlilega í fersku vatni, þ.e. krabbadýr eða lindýr frá eldisstöð. Þegar ég les svo frumvarpið yfir sé ég að það er í rauninni aðeins talað um laxfiska og ég hef líka komist að því að í rauninni er verið að tala um að rækta upp ár og vötn með laxfiskum, ef ég hef skilið það rétt.

Mig langar að beina því til hæstv. ráðherra að ekki séu settar skilgreiningar inn í frumvörp þegar aldrei er minnst á það sem skilgreint er í frumvarpinu, en það er nákvæmlega það sem gert er hér, þ.e. það er bæði talað um eldisdýr og þar höfð með krabbadýr eða lindýr, eins og ég sagði áðan, og síðan er talað um lagardýr sem lifa og geta afkvæmi í sjó eða fersku vatni. Við erum bara að tala um eldi laxfiska hér í þessu frumvarpi.

Hins vegar langar mig að spyrja ráðherrann hvað ráði því hvaða fisktegundir falli undir landbúnaðarráðuneyti og af hverju t.d. barri og lúða, sem hvort tveggja eru sjófiskar, falla ekki undir landbúnaðarráðuneytið heldur sjávarútvegsráðuneytið samkvæmt þessu frumvarpi og því frumvarpi sem við vorum að fjalla um áðan.