132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Fiskrækt.

613. mál
[22:33]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hér hafa verið áhugaverðar umræður um þetta frumvarp til laga um fiskrækt og m.a. komið þar fram að í það vantar ákvæði um Fiskræktarsjóð sem eru þó til staðar í gömlu lögunum sem nú eiga svo að heita, um lax- og silungsveiði. Þar er heill kafli, XIV. kafli, um Fiskræktarsjóð og styrkveitingar til fiskræktar.

Eins og komið hefur fram virðast vera uppi einhverjar deilur um það hvernig tekjuöflun þessa sjóðs skuli háttað. Þetta leiddi til þess að það rifjaðist upp fyrir mér að hæstv. landbúnaðarráðherra mælti fyrir frumvarpi, að ég hygg veturinn 2003–2004, um tekjuöflun til Fiskræktarsjóðs. Mig rekur minni til þess að það frumvarp hafi farið í gegnum 1. umr., síðan inn í landbúnaðarnefnd og svo ekki söguna meir. Ég man eftir því að fram komu mjög harkaleg viðbrögð frá Landsvirkjun varðandi það frumvarp. Landsvirkjun var ekki sátt við að greiða í þennan sjóð. Ég man ekki alveg hvernig þetta var en ég hygg að þetta gefi allt saman tilefni til þess að landbúnaðarnefnd rifji það mál upp og skoði á nýjan leik um hvað það mál snerist á sínum tíma, þótt ekki væri nema til að fríska upp á minnið og skoða hvað hér er á ferðinni.

Það er á vissan hátt mjög athyglisvert að heyra að deilur virðast vera uppi innan ríkisstjórnarinnar um hvernig málefnum Fiskræktarsjóðs skuli háttað til framtíðar. Ég vil sjálfur lýsa því yfir að ég tel fyllilega eðlilegt að vatnsaflsvirkjanir í landinu greiði ákveðið hlutfall af tekjum sínum til fiskræktar og tek þar undir orð hæstv. landbúnaðarráðherra. Það er eðlilegt sanngirnismál að þessar virkjanir leggi í sjóð til að efla fiskrækt í landinu.

Það er oft þannig, virðulegi forseti, að einmitt virkjanaframkvæmdir hafa að einhverju leyti bitnað á möguleikum villtra fiskstofna til að halda sínu í ferskvatnsvistkerfum sem hafa verið virkjuð. Má tína til margar röksemdir til að styðja það, kannski skýrasta og þá sem mér finnst alltaf sárust örlög Þingvallaurriðans sem ég hef oft rætt um hér áður. Steingrímsstöð í Sogi sem gerð var á sínum tíma eyðilagði að mjög stórum hluta möguleika þessa stórkostlega fiskstofns, urriðans í Þingvallavatni, til að tímgast. Ég hef sjálfur viðrað hugmyndir, og jafnvel verið með mál inni á þingi, um að þetta yrði lagfært, að Steingrímsstöð yrði breytt, stíflan fjarlægð þannig að urriðinn endurheimti riðstöðvar sínar til hrygninga og næði þannig vopnum sínum á nýjan leik. Ég hygg að einmitt þessi urriðastofn sé ákaflega merkilegur og mjög dýrmætur og ef Sogið yrði aftur fært til fyrri vegar mundi þar skapast stórkostleg náttúruauðlind sem gæfi af sér miklar tekjur. Þar endurynnum við á nýjan leik stærsta útfall af fersku vatni sem finnst á Íslandi. Þetta var stórkostleg náttúruperla áður en þessi virkjun var sett niður. Það er vel hægt að endurheimta þetta á nýjan leik og ef stíflan yrði fjarlægð yrði það dæmi um hvernig hægt er að fara út í það sem getum kallað afturkræfar virkjunarframkvæmdir. Stöðvarhúsið mætti síðan nota í eitthvað annað, til að mynda sem eins konar sýningarglugga fyrir lífríkið í Þingvallavatni og umhverfis vatnið, eins konar safn eða miðstöð fyrir ferðamenn til að kynna sér það stórkostlega náttúruundur sem vistkerfið Þingvallavatn er og Sogið þar með.

Þetta var smáútúrdúr, en þó ekki, við frumvarpið sem hér liggur fyrir. Um frumvarpið sjálft er kannski ekki nema gott eitt að segja. Þetta er síðasta frumvarpið í þessari miklu seríu af lagafrumvörpum sem hæstv. ráðherra hefur mælt fyrir hér í dag. Við erum komin að lokum umræðunnar og ástæða til að fara að setja punktinn yfir i-ið.

Ég held að við gerum okkur öll grein fyrir að einmitt ferskvatnsfiskstofnar hér við land, lax- og silungsstofnar, bleikja og urriði, eru mjög mikilvæg og dýrmæt auðlind. Þetta skapar miklar tekjur, veltir miklum fjármunum og skapar einnig umtalsverða starfsemi. Tölur segja okkur að 55–65 þús. manns njóti árlega sportveiða sem er mjög vinsæl afþreying til upplyftingar og heilsubótar, bæði hjá innlendum og erlendum veiðimönnum. Þetta skapar vinnu og tekjur, ekki síst í tengslum við landbúnað og ferðaþjónustu.

Ég tel að við Íslendingar höfum verið ákaflega gæfusöm varðandi nýtingu þessarar auðlindar. Við tókum mjög snemma upp, eins og ég sagði í ræðu minni fyrr í kvöld, löggjöf sem var mjög framsýn og góð og hefur dugað vel, þ.e. gömlu lögin um lax- og silungsveiði, komum á fót þessu formi með veiðifélögum og tryggðum þannig að eigendur nýtingarréttarins fengju tekjur sem var þá réttlátlega skipt. Þannig hafa tekjurnar orðið eftir í hinum dreifðu byggðum landsins, öllum til hagsbóta.

Ég vil þó segja það, virðulegi forseti, af því að við erum hér að ræða frumvarp til laga um fiskrækt og hvernig staðið skuli að henni í framtíðinni, kannski einkum og sér í lagi varðandi það hvernig við ræktum veiðivötnin okkar með sleppingu seiða og öðru sem miðar að því að efla þessa fiskstofna til hagsbóta fyrir fólkið og hinar dreifðu byggðir í landinu, tel ég að þarna séu einmitt mörg vannýtt sóknarfæri. Ég tel að hægt sé að auka mjög tekjurnar, til að mynda í tengslum við veiði á silung.

Veiðimálastofnun hefur nánast árlega komið á fund til okkar í landbúnaðarnefnd og líka til fjárlaganefndar, að því er ég best veit, og bent á að færa megi góð rök fyrir að hægt sé að tvöfalda tekjurnar af silungsveiðum á næstu fimm árum og fjórfalda á næstu 10 árum með því að nýta bæði árnar og vötnin betur en við gerum núna. Þetta segir manni margt um það hvers konar ónýtt sóknarfæri liggja í þessari auðlind á Íslandi.

Ég hygg að vel heppnaðar ræktunaraðgerðir gætu skilað okkur þó nokkrum ávinningi umfram það sem við höfum náð nú þegar. Þarna vil ég um leið nota tækifærið til að benda á að hér hljóta rannsóknir að vera ákaflega mikilvægar. Mér fannst hálfleitt að heyra hjá hæstv. landbúnaðarráðherra áðan þegar hann sagði frá því að Veiðimálastofnun ætti við erfiðleika að etja nú um stundir vegna þess að fjárhagurinn væri ekki nógu góður. Ég vona að hægt verði að kippa því í lag. Ég vona líka að við munum í framtíðinni sjá auknar fjárveitingar til Veiðimálastofnunar og að farið verði í að vinna markvissar en gert hefur verið fram til þessa að rannsóknum varðandi fiskrækt.

Þess vegna hlýt ég að fagna því að hér er talað um að gerð verði fiskræktaráætlun sem nái til fimm ára í senn. Ég hygg að þarna geti verið þó nokkuð mikið að sækja til að auka verðmætin og tekjurnar af þessari mikilvægu auðlind. Ég hygg að margir hæfir menn og konur hafi þegar í dag mótaðar hugmyndir um hvað hægt sé að gera til að auka tekjurnar og þar af leiðandi verði ekki mjög vandasamt að koma svona fiskræktaráætlun saman og síðan vinna að henni. En að sjálfsögðu kostar þetta allt saman peninga og við hljótum að verða að tryggja að fjármagnið sé fyrir hendi.

Við getum séð fyrir okkur að hérna verði þá samstillt átak stjórnvalda og hagsmunaaðila, veiðiréttareigendur geti lagt eitthvað af mörkum. Veiðimenn, aðilar í ferðaþjónustu, aðrir hagsmunaaðilar, geta þá tekið fjárhagslegan þátt í að byggja frekar upp þessa mikilvægu auðlind, auka rannsóknir, hefja ræktunaraðgerðir, bæta aðgengi að veiðistöðum, bæta aðstöðuna fyrir veiðimenn, kynna veiðivötnin okkar betur, ekki síst fyrir erlendum ferðamönnum, bæta skráninguna á silungsveiðinni sem er náttúrlega mjög mikilvæg fyrir rannsóknir. Þar vil ég einmitt benda á að veiðidagbækurnar sem við höfum haldið í laxveiðiánum okkar um langan aldur eru á margan hátt alveg stórmerkileg heimild, m.a. mjög mikilvægur og merkur gagnagrunnur fyrir rannsóknir. Þessar bækur hafa verið haldnar í marga áratugi og þar er að finna mikinn fróðleik um veiðarnar, um fiskinn sem veiðist á hverjum tíma. Þarna geta líffræðingar dregið út mikla þekkingu. Þetta er einstakt að ég hygg í heiminum, að til sé jafnnákvæm skráning á afla og fiski þar sem fiskurinn hefur verið mældur og veginn, skráður til kyns og annað þess háttar, hvar hann hefur veiðst og fleiri þættir eru skráðir. Ég held að það sé alveg einstakt í heiminum að til sé jafngóð skráning hvað þessa þætti varðar í svo langan tíma og hér á Íslandi. Þetta er enn eitt atriðið sem segir manni hversu góð og framsýn gömlu lögin um lax- og silungsveiði voru á sínum tíma.

Virðulegi forseti. Ég ætla svo sem ekki að hafa mál mitt lengra. Þetta hefur á margan hátt verið góð og skemmtileg umræða hér í dag. Menn hafa komið víða við og bent hefur verið á margt áhugavert og hreyft við mörgu þótt ýmislegt hafi líka verið látið liggja, ef svo má segja, enda erum við hér að ræða mjög umfangsmikinn og stóran lagabálk.

Ég vil svo segja að nú fara þessi frumvörp inn í landbúnaðarnefnd og þaðan út til umsagnar. Ég vil ljúka máli mínu á sama hátt og ég hóf það fyrr í dag og mælast til þess, og hér liggur ekkert annað en góður hugur að baki, að við förum okkur ekki of hratt í þeirri vinnu sem fram undan er, að við vöndum til verka. Ég hefði helst viljað sjá það þannig, virðulegi forseti, að við settum okkur það markmið að þessi fimm frumvörp sem við höfum talað um hér í dag yrðu ekki afgreidd héðan sem lög fyrr en við lok þessa árs þannig að landbúnaðarnefnd gæfist tími til að vinna að þessari lagasetningu í sumar og síðan í haust. Ég óttast að ef við förum í þetta verk núna, ef við flýtum okkur um of á þessum örfáu vikum sem eftir eru af þinginu, munum við kasta til hendinni og gera mistök, samþykkja lög sem kannski eru ekki nógu góð, gera mistök vegna tímaskorts.

Nú fer í hönd mjög annasamur tími hjá þingmönnum. Margar nefndir halda marga fundi. Það eru mörg frumvörp sem liggja fyrir og þurfa að fá afgreiðslu fyrir vorið. Ég hygg að þessi frumvörp hefðu mjög gott af því að bíða haustsins og fá þá vandaða og yfirvegaða umfjöllun í landbúnaðarnefnd og að við settum okkur það markmið, eins og ég sagði áðan, virðulegi forseti, að þessi frumvörp yrðu síðan að lögum fyrir næstu áramót. Þá getum við með góðri samvisku afgreitt nýja lagabálka um lax- og silungsveiði sem munu endast okkur næstu þrjá áratugina og gott betur, eins og gömlu lögin um lax- og silungsveiði frá sumrinu 1970.