132. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2006.

Staða efnahagsmála.

[13:39]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Mánudagurinn 13. september var erfiður dagur í íslensku efnahags- og fjármálalífi. Krónan féll, hlutabréf lækkuðu umtalsvert og álag á skuldabréf íslensku bankanna á alþjóðamarkaði hækkaði. Sem betur fer hefur fjármálakerfið heldur rétt úr kútnum aftur og bankarnir snúið vörn í sókn.

Fljótt á litið er ástæðan fyrir þessum hremmingum neikvæð umfjöllun um íslenska fjármálakerfið hjá erlendum greiningarfyrirtækjum og fjölmiðlum. Þá neikvæðni má a.m.k. að hluta til rekja til þess að ekki hefur verið nægilega virk og trúverðug upplýsingagjöf til markaðarins. Þar var bæði við bankana sjálfa að sakast en jafnframt við þær eftirlitsstofnanir sem eiga að fylgjast með fjármálastöðugleikanum, Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið. Mikilvægt er að þessar stofnanir framkvæmi álagsprófanir á bankakerfinu sem gefi raunsanna mynd af því hvernig þeir eru í stakk búnir til að takast á við umtalsverða gengislækkun, lækkun á hlutabréfamarkaði og hækkandi vexti á erlendum mörkuðum.

Ég gagnrýndi í upphafi síðustu viku að slíkar álagsprófanir hefðu ekki farið fram en sé nú á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins að það hefur breytt reglum sínum í þessa veru, einmitt í upphafi síðustu viku, og segir jafnframt að útreikningar þess á áhrifum nýrra reglna sýni að viðskiptabankarnir þoli umtalsverða áraun án þess að eiginfjárhlutfall þeirra fari niður fyrir lögbundið 8% lágmark.

Bankarnir stóðust álagsprófið, en hvað með hagkerfið? Hin undirliggjandi ástæða þess sem gerðist 13. september er vantrú á íslenska efnahagskerfinu vegna mikils og viðvarandi viðskiptahalla sem náði áður óþekktum hæðum á síðasta ári og var 164 milljarðar kr. Þetta hefur leitt til gríðarlegrar skuldasöfnunar erlendis sem í fyllingu tímans leiðir yfirleitt til gengisfalls og aukinnar verðbólgu.

Tölurnar eru ógnvekjandi, virðulegur forseti. Skuldir þjóðarinnar hafa rokið upp úr öllu valdi síðustu ár. Þær voru 50% af landsframleiðslu árið 1997 en voru komnar í 294% í árslok 2005. Þegar lánshæfismat Fitch annars vegar og Standard & Poor's hins vegar fyrir íslenska ríkið er skoðað kemur í ljós að það er fernt sem þessi fyrirtæki hafa öðru fremur áhyggjur af. Í fyrsta lagi er gríðarleg skuldasöfnun þjóðarbúsins, í öðru lagi að of mikið sé lagt á peningamálastefnuna meðan ríkisfjármálin hafa setið hjá, í þriðja lagi of lítil upplýsingagjöf um samsetningu og áhættuvarnir erlendra skulda og í fjórða lagi of miklar væntingar, m.a. vegna stóriðjuframkvæmda.

Frá þessum greiningarfyrirtækjum koma setningar eins og þessi, virðulegi forseti, frá Standard & Poor's:

„Erlend fjármögnunarþörf hagkerfisins er ein sú mesta sem um getur meðal ríkja sem hafa lánshæfiseinkunn.“ Þeir segja líka:

„Vaxandi ójafnvægis gætir í þjóðarbúskapnum vegna hraðvaxandi innlendrar eftirspurnar sem knúin er áfram af væntingum neytenda og fyrirtækja vegna mikilla fjárfestinga í orkufrekum iðnaði og útlánaþenslu.“

Fitch segir, með leyfi forseta:

„Fitch gagnrýnir núverandi efnahagsstefnu og telur að of mikið hafi verið lagt á peningamálastefnuna á meðan ríkisfjármálin hafa setið hjá. Ástæðan fyrir aðgerðaleysi ríkisvaldsins er sú skoðun stjórnvalda að núverandi ójafnvægi eigi rætur sínar að rekja til einkageirans og muni lagast af sjálfu sér í fyllingu tímans.“ Þeir segja:

„Hrein erlend skuldastaða Íslands er hærri en nokkurs annars lands sem metið er af Fitch.“

Af þessu má ljóst vera, virðulegi forseti, að matsfyrirtækin eru að sýna íslenskum stjórnvöldum gula spjaldið. Hagkerfið er svo yfirspennt að það þolir tæpast illt umtal í erlendum fjölmiðlum. Það eru ýmsir váboðar á lofti sem ástæða er til að taka alvarlega. Vextir fara hækkandi á erlendum mörkuðum og menn geta rétt ímyndað sér hvað það þýðir fyrir skuldsetta íslenska þjóð. Hrein skuldastaða þjóðarbúsins er núna um 1.550 milljarðar og 1% hækkun vaxta þýðir einfaldlega 15 milljarða útgjaldastreymi frá landinu. Gengi krónunnar fer lækkandi og þó að það sé hagstætt fyrir útflutningsgreinarnar er hætta á því að verðbólguskot geti fylgt sem muni hafa í för með sér kjaraskerðingu fyrir heimilin í landinu í formi hærra vöruverðs og aukinnar skuldabyrði vegna verðtryggingar fjárskuldbindinga.

Ég gat um það áðan, virðulegur forseti, að það væri fernt sem matsfyrirtækin hefðu öðru fremur áhyggjur af og nú spyr ég forsætisráðherra hvernig hann telji rétt að bregðast við

1. mikilli skuldasöfnun þjóðarbúsins,

2. gagnrýni og aðgerðaleysi í ríkisfjármálum,

3. of lítilli upplýsingagjöf um álagsvarnir hagkerfisins, og

4. of miklum væntingum vegna hugmynda um auknar stóriðjuframkvæmdir.