132. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2006.

Staða efnahagsmála.

[13:44]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Mér finnst mjög sérkennilegt að hlusta á formann Samfylkingarinnar fjalla um efnahagsmál hér á landi eins og hér sé allt í kaldakoli. Ég hefði haldið að eftir þá neikvæðu umræðu sem fór hér af stað fyrir skömmu og hefur verið kveðin rækilega í kútinn af flestum málsmetandi sérfræðingum yrði farið að fjalla um þessi mál af meiri hófsemd og meiri virðingu fyrir staðreyndum málsins en raun ber vitni.

Hverjar eru aðalstaðreyndir málsins um ástand efnahagsmála hér á landi?

Hagvöxtur frá árinu 1995 hefur verið yfir 60%. Kaupmáttur heimilanna hefur aukist um meira en 60%. Atvinnuleysi er nánast hvergi minna en á Íslandi, um 1,5%. Skuldir ríkissjóðs eru óvíða minni en hér á landi og afkoma ríkissjóðs er með besta móti. Þetta eru staðreyndir málsins. Það viðurkenna þeir sem mesta þekkingu hafa á íslenskum efnahagsmálum eins og sérfræðingar frá OECD sem voru í heimsókn í þessum mánuði og hið sama gildir um sérfræðinga frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og helstu matsfyrirtækjum.

Það er vissulega rétt að skuldir einstaklinga hafa aukist, skuldir fyrirtækja hafa aukist. Skuldir ríkissjóðs hafa hins vegar minnkað en það verður að hafa það í huga að eignir fyrirtækja hafa vaxið gífurlega þar á móti, og hin miklu umsvif bankanna á erlendum vettvangi verður að taka inn í þessa mynd.

Það er talað um mikla skuldasöfnun einstaklinga. Það er rétt að skuldir einstaklinga hafa aukist mikið en þá verður að hafa í huga að eignirnar hafa aukist mjög mikið á móti. Hrein eign heimilanna í húsnæði og í lífeyrissjóðum hefur aukist síðustu fimm árin um 1.200 millj. kr., þ.e. 12 millj. á hvert heimili í landinu. Þá eru hvorki talin verðbréf né bílaeign. Það er líka rétt að nefna það í þessu sambandi að skuldir heimilanna nema nú um 35% af eignum þeirra og hefur hlutfallið farið lækkandi á síðustu árum.

Ég tel að það sé áhyggjuefni hversu viljugir sumir fjölmiðlar og stjórnarandstaðan hafa verið til að hlaupa upp til handa og fóta og taka undir ýmsa órökstudda gagnrýni sem nokkrir erlendir aðilar hafa haldið á lofti, þar á meðal bankar. Greiningardeildir banka eru í harðri samkeppni við íslensku bankana þannig að gagnrýnin er hreinlega sett fram í því skyni að koma höggi á samkeppnisaðilana. Slíkt háttalag er ekki til að auðvelda íslenskum fjármálastofnunum að koma á framfæri réttmætum leiðréttingum á þessum rangfærslum. (Gripið fram í.) Það er hins vegar rétt að sanngjörn gagnrýni sem byggir á staðreyndum og yfirveguðu mati er af hinu góða og á fullan rétt á sér. Við verðum að bregðast við með því að koma á framfæri réttum upplýsingum um góða stöðu íslenskra efnahagsmála.

Það er talað um, og hv. þingmaður ræddi um það, að heimili og fyrirtæki hafi of miklar væntingar um stóriðjuframkvæmdir. Hverjir skapa þær væntingar? Ríkisstjórnin hefur ekki skapað þær væntingar. Hér hefur verið gífurleg umræða um það eins og búið sé að ganga frá því að farið verði í ákveðnar framkvæmdir. Það hefur ekki verið samið um neinar aðrar framkvæmdir en þær sem eru í gangi á Reyðarfirði og á Grundartanga.

Það er hins vegar ljóst að ef verður af frekari uppbyggingu stóriðju hér á landi verður að tímasetja slíkar framkvæmdir vandlega til að þær falli sem best að efnahagslífi okkar og þar verður stöðugleiki í efnahagsmálum algjört forgangsatriði en það er allt of snemmt að fara að tala um þessar framkvæmdir sem einhverjar staðreyndir áður en nokkrar frekari ákvarðanir hafa verið teknar um þær.