132. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2006.

Staða efnahagsmála.

[13:49]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ein merkustu tíðindi þessa dagana í umræðunni um efnahagsmál eru tvímælalaust bók rithöfundarins og hugsjónamannsins Andra Snæs Magnasonar, Draumalandið. Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð. Fyrirlestrar hans og viðtöl hafa svo sannarlega hrist upp í þjóðinni og munu vonandi vekja hana til sjálfsvitundar.

Meginþorri þjóðarinnar vill stöðva frekari álversframkvæmdir, stórvirkjanir og umhverfisspjöll. Samt stillir ríkisstjórnin því upp sem eina valkostinum.

Meginþorri þjóðarinnar vildi að herinn færi eða vissi að hann var á förum. Þegar hann svo fer er það blásið upp sem náttúruhamfarir eða gífurleg ógn. Fjölmiðlar sýna fundi með forsætisráðherra í beinni útsendingu eins og um eldgos væri að ræða.

Nú er það ávallt alvarlegt mál þegar fólk missir vinnuna. Það fannst fólkinu í sjávarbæjum á Vestfjörðum þegar fyrirtæki þess urðu að loka vegna kvótakerfisins og stóriðjustefnunnar. Það fannst líka starfsfólki Símans á Ísafirði og á Blönduósi þegar því var fyrirvaralaust sagt upp eftir að Síminn hafði verið einkavæddur og seldur.

Staðreyndin er þó sú að þenslan hér á suðvesturhorninu ógnar stöðugleika efnahagslífsins og stjórnvöld hafa vart undan að rýmka heimildir fyrir innflutningi á erlendu starfsfólki. Andri Snær segir, með leyfi forseta:

„Sífelld yfirvofandi kreppa hefur verið notuð til að stýra fólki. Leiðtogarnir ákveða að leiða ekki þjóðina, heldur stjórna. Með því stefnum við inn í framtíð sem er ekki það sem við viljum heldur það sem við teljum okkur neyðast til að verða.“

Frú forseti. Stefna Vinstri grænna í atvinnumálum byggist á því að eiga góða valkosti en ekki afarkosti.