132. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2006.

Staða efnahagsmála.

[13:51]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Til skamms tíma var helsta vandamálið í íslensku efnahagslífi of hátt gengi krónunnar. (Gripið fram í: Nú er það Sjálfstæðisflokkurinn.) Nú hefur gengið fallið, líka gengi hv. þingmanns sem greip fram í, og þá virðist manni á ræðu hv. málshefjanda að helsti vandi efnahagslífsins sé sá að gengið lækkar, þrátt fyrir að allir sem á annað borð spá um þessa hluti hafi spáð því að það mundi lækka. Það var einungis spurning um tíma og spurning um það hversu mikið það mundi lækka. Nú virðist gengið vera að ná stöðugleika á nýjum stað í gengisvísitölunni og það er út af fyrir sig jákvætt.

Hv. þingmaður nefnir það líka að ríkisfjármálin séu helsti vandinn. Of mikið sé lagt á peningastefnuna. Það getur vel verið að mikið sé lagt á peningastefnuna. En samt er staðan sú að við erum með mestan afgang af ríkissjóði ef miðað er við þau lönd sem við almennt berum okkur saman við. Þetta eiga allir að geta séð sem fletta þeim ritum sem um þetta fjalla.

Skuldasöfnun er líka eitt stóra vandamálið. En eru ekki eignir á móti þessum skuldum? En það virðist líka hafa verið eitt af höfuðvandamálunum, ef marka má málflutning hv. ræðumanns, hvað eignirnar hafa aukist mikið.

Þá stendur tvennt eftir. Það er upplýsingagjöfin. Auðvitað má alltaf bæta upplýsingagjöfina. En þeir sem eiga að fjalla um málið þurfa líka að leita eftir upplýsingunum. Þeir þurfa að gæta þess að vera alltaf með nýjustu upplýsingarnar. Ég held að það hafi skort á að þeir sem um málin fjalla hafi gert sér grein fyrir því að t.d. íslensku bankarnir hefðu varið sig fyrir gengislækkuninni.

Og síðan eru það væntingarnar, að væntingarnar séu of miklar. En það, frú forseti, fer eftir því hvaða trú (Forseti hringir.) kjósendur og íbúar landsins hafa á framtíðinni, og þeir hafa mikla trú á framtíðinni.