132. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2006.

Staða efnahagsmála.

[14:05]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Um langt skeið hefur verið bent á að blikur væru á lofti í efnahagslífi þjóðarinnar og því er mjög mikil þörf á þeirri umræðu sem hér fer fram og einnig að hún verði ábyrg. Við í Frjálslynda flokknum höfum frá því í janúar óskað eftir að skuldastaða þjóðarinnar yrði rædd en því miður hefur það ekki fengið nokkurn hljómgrunn nema hjá Vinstri grænum. Aðrir flokkar hafa einfaldlega lagst gegn þeirri umræðu svo ótrúlegt sem það er. En það er eins og þessi þrír stærstu flokkar trúi því að með því að ræða ekki hlutina gufi vandamálið einfaldlega upp.

Við lifum vissulega góða daga hér á landi en það þarf sterk bein til að þola góða daga. Það virðist samt vera svo að ríkisstjórnin hafi ekki þolað þessa góðu daga heldur eytt um efni fram og valdið gífurlegri útþenslu ríkisútgjalda, eytt 120 milljörðum á síðustu tíu árum. Hæstv. forsætisráðherra hefur ítrekað vísað á bug allri gagnrýni á stjórn efnahagsmála. Skemmst er að minnast stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra. Aðeins örlaði þó á því hjá hæstv. forsætisráðherra að eitthvað bjátaði á þegar gengi íslensku krónunnar hríðféll eina vikuna og gengi íslenskra hlutabréfa um 1.000% og þá var skipuð samráðsnefnd. En nú virðist hæstv. forsætisráðherra hafa sett upp gleraugun aftur og sér ekki neitt að. Hann vísar til þess að eignir hafi aukist gífurlega og að skuldastaða ríkisins hafi batnað. Það er vissulega rétt en það eru blikur á lofti sem ekki eru farnar, viðskiptahallinn er gríðarlegur. Ég tel að hæstv. forsætisráðherra hefði átt að nota umræðu sem þessa til að boða einhverjar aðgerðir í efnahagsmálum (Forseti hringir.) í stað þess að setja gleraugun upp á ný, sólgleraugun, frú forseti.