132. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2006.

Þjóðskrá og almannaskráning.

566. mál
[14:17]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar ég kastaði augunum yfir þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu hnaut ég um að í 1. gr. stendur að dómsmálaráðherra skuli fara með stjórn Þjóðskrár og hún skuli rekin sem skrifstofa í dómsmálaráðuneytinu. Þá fór ég að velta því fyrir mér hvort þessi starfsemi væri ekki betur sett einhvers staðar annars staðar en uppi á Arnarhóli — er ekki dómsmálaráðuneytið þar einhvers staðar? Ég hef aldrei komið þangað en mig minnir það. — Eru þetta ekki störf sem er alveg sjálfsagt og eðlilegt að íhuga að verði flutt út á land? Hvað er það sem mælir með því að Þjóðskráin sé í Reykjavík og til hvers erum við með svona batterí eins og Hagstofuna í Reykjavík? Af hverju er þetta ekki flutt út á land?

Í gær var vakin athygli á svari hæstv. fjármálaráðherra við fyrirspurn hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar þar sem kom fram að störfum á vegum ríkisins hefur fjölgað gríðarlega á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum örfáum árum á meðan þeim hefur annaðhvort fækkað, fjölgað örlítið eða hreinlega staðið í stað úti á landi. Mér finnst kominn tími til að hér verði gerð alvöru stefnubreyting á og menn hætti að tala um að efla landsbyggðina, bæjarfélög og sveitarfélög með því að flytja þangað störf en láti hendur standa fram úr ermum og sýni vilja í verki og mér þætti alveg tilvalið að byrja á því að taka þessi störf. Þetta eru störf sem ég hygg að séu að mestu leyti unnin í tölvum, störf sem falla mjög vel að fjarvinnslu og í raun og veru hægt að vinna hvar sem er bara ef fólk er með nógu góða tölvuþekkingu.

Ég kom hingað upp til að spyrja hæstv. forsætisráðherra að því hvort hann væri ekki reiðubúinn til að íhuga að þessi verkefni yrðu flutt eitthvað út á land.