132. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2006.

Almenn hegningarlög o.fl.

619. mál
[15:43]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki annað um þetta að segja en það sem hér hefur komið fram og þakka undirtektir undir frumvarpið. Eins og menn vita sem sjá þetta mál er það byggt á samningi Evrópuráðsins og þetta eru þær breytingar sem sérfræðinefndir, þ.e. refsiréttarnefnd, sem hefur fjallað um málið ásamt réttarfarsnefnd að tilhlutan minni, telja að nauðsynlegt sé að færa hér í lög til að við getum staðið við skuldbindingar samkvæmt þessum samningi.

Á bls. 10 segir, með leyfi forseta:

„Samningur Evrópuráðsins um tölvubrot gerir ráð fyrir nýju úrræði við rannsókn sakamála vegna brota sem framin eru með atbeina upplýsingatækni. Tekur þetta úrræði mið af hættu á því að spillt verði eða breytt tölvugögnum sem hafa að geyma sönnun fyrir broti. Í samræmi við þetta er lagt til í 5. gr. frumvarpsins að bætt verði nýju ákvæði við lög um meðferð opinberra mála, sem verði 87. gr. a, með heimild fyrir lögreglu, í þágu rannsóknar opinbers máls, að leggja fyrir þann sem rekur fjarskiptaþjónustu eða fjarskiptanet að varðveita þegar í stað tölvugögn, þar með talin gögn um tölvusamskipti, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Þetta nær aðeins til fyrirmæla um að varðveita gögnin og er miðað við að lögregla geti gefið slík fyrirmæli án undanfarandi dómsúrskurðar.“

Þegar maður les þetta held ég að þetta skýri sig sjálft. Það segir hér, með leyfi forseta:

„Tekur þetta úrræði mið af hættu á því að spillt verði eða breytt tölvugögnum sem hafa að geyma sönnun fyrir broti.“

Um það snýst málið. Verið er að koma í veg fyrir þá hættu að tölvugögnum verði breytt eða þeim spillt af því að þau geta haft að geyma sönnun fyrir broti.

Síðan er það svo að lögreglan getur ekki farið í gögnin nema með sérstakri nýrri heimild. Heimild þarf að vera fyrir lögregluna, að mati þeirra sem gerðu þennan samning, að hafa úrræði sem gefa lögreglunni tilefni til að bregðast skjótt og harkalega við til þess að varðveita þetta en ekki meira. Ég held að þeir sem sömdu samninginn og þeir sem síðan taka mið af þessu við gerð frumvarpsins byggi á reynslu sem segir að nauðsynlegt sé til að upplýsa mál af þessum toga að lögregla hafi úrræði sem þessi og ekki sé unnt að búast við því að lögreglan nái árangri í að upplýsa um svona mál nema þessum úrræðum sé fyrir að fara í lögum. Þetta er skýring mín varðandi þetta atriði.

Um 6. gr. er líka sömu sögu að segja. Hún tekur náttúrlega mið af umræddum samningi og byggist á því að við færum í lög heimildir sem nauðsynlegar eru til að við getum staðið við samninginn.

Ef ég má, með leyfi forseta, lesa upp úr greinargerðinni á bls. 11, þá segir:

„Til að tryggja að fyrirmælum lögreglu verði fylgt eru sem fyrr greinir lagðar til viðeigandi breytingar á lögum um fjarskipti. Þær breytingar felast í því að með 6. gr. frumvarpsins er lagt til að tveimur nýjum málsgreinum verði bætt við 47. gr. laganna og komi í IX. kafla um vernd persónuupplýsinga og friðhelgi einkalífs, þar sem beinlínis verði kveðið á um skyldu þess sem rekur fjarskiptaþjónustu eða fjarskiptanet til að verða við tilmælum lögreglu um aðstoð við rannsókn sakamáls, enda styðjist þau tilmæli við dómsúrskurð eða lagaheimild. Rétt þykir að binda þetta ekki við skyldu til varðveislu gagna heldur verði þetta almennt og taki því einnig til annarra rannsóknarúrræða, þar á meðal hlerunar. Þá er lagt til að starfsmenn fjarskiptafyrirtækis beri þagnarskyldu um þær aðgerðir sem gripið er til við rannsókn máls. Er rétt að kveða beinlínis á um þetta í lögum eins og gert er ráð fyrir í 3. mgr. 16. gr. samningsins.“

Þetta er sem sagt til þess að við stöndum þannig að vígi að við getum framfylgt 3. mgr. 16. gr. samningsins og þá telja refsiréttarnefnd og réttarfarsnefnd nauðsynlegt að setja þetta inn í okkar lög.

Hvað felst síðan í hugtakinu aðstoð er náttúrlega skýrt að nokkru leyti í þessu sem ég hef lesið: „Rétt þykir að binda þetta ekki við skyldu til varðveislu gagna heldur verði þetta almennt og taki því einnig til annarra rannsóknarúrræða, þar á meðal hlerunar,“ segir hér. Aðstoðin getur því verið þar á meðal hlerun og eitthvað annað sem menn telja að sé til þess fallið að upplýsa þetta mál.

Mér finnst að þessu sé ágætlega svarað í greinargerðinni en ég er líka viss um að hv. allsherjarnefnd getur fengið nánari skýringar og vafalaust dæmi frá sérfræðingum refsiréttarnefndar og réttarfarsnefndar þegar málið verður tekið til umræðu í nefndinni. En ég er þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé fyrir okkur að hafa þennan samning sem hluta af lagaumgjörð okkar. Engin þjóð í heiminum notar tölvur eins mikið og við. Við vitum líka að hér hafa menn verið teknir fyrir að misnota tölvur á þann veg að full ástæða er fyrir okkur að staðfesta þennan samning og lögfesta þau úrræði í landslög okkar sem við teljum nauðsynleg til að við getum unnið samkvæmt honum.