132. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2006.

Vegabréf.

615. mál
[15:49]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Hér fyrr í dag flutti forsætisráðherra tvö mál sem snúast um það að flytja Þjóðskrá frá Hagstofu Íslands til dómsmálaráðuneytisins. Þegar menn sjá þetta frumvarp til laga um breyting á lögum um vegabréf, nr. 136 22. desember 1998, sjá menn að gert er ráð fyrir því að flytja útgáfu vegabréfa frá Útlendingastofnun til Þjóðskrár. Einnig er gert ráð fyrir því að sýslumenn, lögregla og önnur stjórnvöld taki við umsóknum um vegabréf eftir því sem ráðherra ákveði og einnig að Þjóðskrá geti falið öðrum að annast einstök verkefni við framleiðslu og skráningu upplýsinga í vegabréfabók.

Síðan eru þarna ákvæði um það sem þarf að vera í vegabréfunum og hvaða skilyrði vegabréfin þurfa að uppfylla til þess að við stöndumst alþjóðlegar kröfur um það sem kallað er rafræn lífkenni í vegabréfum. Notkun rafrænna lífkenna í vegabréfum er einkum ætlað að auka nákvæmni auðkenningar og þar með öryggi og skilvirkni í landamæraeftirliti.

Við búum við það hér síðan, ef ég veit rétt, árið 1999 að öll vegabréf sem eru gefin út á Íslandi eru tölvulesanleg en okkar vegabréf bera ekki það sem kallað er stöðluð rafræn lífkenni sem henta fyrir vélrænan samanburð. Lífkenni er íslenskun á orðinu „biometrics“ en samkvæmt reglugerð Evrópusambandsins frá 13. des. 2004, sem vísað er til í almennum athugasemdum með frumvarpinu, skulu aðildarríki Evrópusambandsins hefja útgáfu nýrra vegabréfa með örflögu sem ber að lífkenna upplýsingar eigi síðar en 28. ágúst árið 2006. Þessi reglugerð er bindandi fyrir okkur og Norðmenn vegna aðildar okkar að Schengen-samstarfinu.

Þess ber að geta að þrátt fyrir ofangreindar breytingar þurfa þeir sem eru með tölvulesanleg vegabréf núna ekki að endurnýja þau þar sem þau munu gilda áfram út sinn gildistíma einnig án áritunarskyldu til Bandaríkjanna. Þess ber að geta að Bandaríkin hafa sett fram þær kröfur að ríki sem vilja halda stöðu sinni í því sem þau kalla Visa Waver Program, þ.e. að borgarar þessara ríkja geti ferðast til Bandaríkjanna án vegabréfsáritunar, verði að gefa út vegabréf með örflögu sem í eru stöðluð rafræn lífkenni eftir 26. október árið 2006. Vegabréf gefin út eftir þann dag munu ekki duga til farar til Bandaríkjanna án áritunar nema þau innihaldi lífkenni samkvæmt stöðlum frá Alþjóðlegu flugmálastofnuninni.

Ég vil taka það fram að þetta á ekki við um vegabréfin sem eru gefin út eftir 1999. Það er nauðsynlegt að hafa það í huga að vegabréfin sem gefin voru út eftir 1999, tölvulesanlegu vegabréfin, er hægt að nota út sinn gildistíma til ferða til Bandaríkjanna án þess að fá vegabréfsáritun — ef menn eru að fara til Bandaríkjanna og vilja komast hjá því að vera með vegabréfsáritun verða þeir að hafa tölvulesanlegt vegabréf sem er gefið út eftir 1. júlí 1999 eða þessi nýju vegabréf. Munurinn á þessu tvennu er tæknilegur. Þetta nýja vegabréf verður með sérstakri síðu sem hefur að geyma rafrænar upplýsingar sem eru lesanlegar í vél sem verður komið fyrir á landamærastöðinni og getur borið þær upplýsingar sem eru í vegabréfinu saman við gagnagrunna o.s.frv.

Það er gert ráð fyrir því að í fyrstu atrennu verði lífkennið sem sett verði í vegabréfið stafræn mynd af umsækjanda og síðan er heimild í frumvarpinu fyrir dómsmálaráðherra að bæta við, eins og segir hér:

„Dómsmálaráðherra getur ákveðið að fingraför umsækjanda skuli skönnuð og varðveitt í vegabréfinu.“

Á síðari stigum er gert ráð fyrir því að það skilyrði verði sett að fyrir utan þessa stafrænu mynd verði einnig fingraför hluti af þeim auðkennum sem vegabréfið hefur að geyma. Það er stefnt að því að þetta taki gildi á Schengen-svæðinu árið 2009 þannig að það eru þær dagsetningar sem menn hafa í huga varðandi þetta.

Eins og ég sagði í upphafi er gert ráð fyrir að Þjóðskráin komi í stað Útlendingastofnunar við útgáfu vegabréfanna og Þjóðskráin haldi skilríkjaskrá um öll útgefin vegabréf og önnur skilríki sem Þjóðskrá verður falið að annast útgáfu á og þetta kemur fram í lögunum um Þjóðskrána. Þjóðskrá og lögreglu verði heimilt að nota skilríkjaskrá við skilríkjaútgáfu til að bera kennsl á mann eða staðreyna að hann sé sá sem hann kveðst vera, sbr. 7. gr. frumvarpsins. Þegar þetta gengur fram mun framleiðsla vegabréfanna flytjast frá Útlendingastofnun til sérstakrar framleiðslustöðvar sem dómsmálaráðuneytið er að koma upp núna í Reykjanesbæ. Þar hefur verið fest fé í tækjabúnaði sem á að gera kleift að framleiða þessi vegabréf þannig að þau fullnægi öllum kröfum. Þetta er framleiðsla sem skapar fjögur ný störf sem menn hafa mikinn áhuga á á þessum slóðum um þessar mundir eins og kunnugt er. Einnig hefur verið fest fé í tækjabúnaði sem gerir kleift að framleiða hér á landi kort eins og ökuskírteini og önnur slík kort sem hingað til hafa verið framleidd erlendis. Með þessu starfi sem undirbúið hefur verið vegna þessa frumvarps erum við að búa til skilríkjaútgáfu á vegum ríkisins sem fullnægir öllum þeim kröfum sem eðlilegt er að gera til slíkrar útgáfu og þess öryggis sem þar þarf að gæta. Við vitum að Íslendingar ferðast mjög mikið og öll eigum við vegabréf og okkur er annt um að hafa vegabréf sem eru þannig að þau fullnægi öllum kröfum.

Ég vil lesa hér, með leyfi forseta, leiðbeiningar sem dómsmálaráðuneytið hefur sett inn á vefsíðu Stjórnarráðsins til þess að bregðast við spurningum sem við teljum algengar þegar um er að ræða hin nýju íslensku vegabréf:

„Í ljósi þeirrar umræðu sem er um væntanlegar nýjungar í íslenskri vegabréfaútgáfu hafa margir haft samband við þær stofnanir sem að vegabréfamálum koma og spurt hvaða áhrif breytingin hafi fyrir hinn almenna íslenska ferðamann. Þess vegna eru birtar hér nokkrar algengar spurningar og svör sem varða útgáfu hinna nýju vegabréfa.“

Spurt er:

„Þarf að sækja um nýtt vegabréf þegar hafin verður útgáfa nýrra vegabréfa?“

Svarið er:

„Nei, öll núgildandi vegabréf halda gildi sínu að fullu. Ekki er stefnt að neins konar innköllun á núgildandi vegabréfum. Öll gild íslensk vegabréf, sem gefin eru út eftir 1. júní 1999, gilda til þess að ferðast án áritunar til Bandaríkjanna. Þeir sem bera íslensk vegabréf útgefin fyrir 1. júní 1999 og ætla til Bandaríkjanna þurfa nú þegar annaðhvort að sækja um áritun til Bandaríkjanna í bandarísku sendiráði eða sækja um nýtt vegabréf.“ — Og mönnum ber að athuga að þetta tengist ekki útgáfu nýju íslensku vegabréfanna heldur bandarískum reglum.

„Margir hafa spurt um hvort þeir þurfi að sækja um hið nýja lífkennavegabréf, þegar útgáfa þess hefst til þess að geta ferðast áritunarlaus til Bandaríkjanna eftir 26. okt. 2006.“

Svarið er:

„Svo er ekki, vegabréf útgefin eftir 1. júní 1999 munu áfram gilda til áritunarlausra ferðalaga til Bandaríkjanna.“

Síðan er spurt hér:

„Hvað er vegabréf með lífkennaupplýsingum, rafrænt vegabréf?“

Svarið er:

„Í þeim vegabréfum sem áætlað er að hefja útgáfu á nú á vordögum 2006 verður örflaga og í henni verða varðveittar upplýsingar unnar úr stafrænni mynd sem tekin verður af umsækjanda vegabréfsins, einnig munu verða varðveittar í örflögunni upplýsingar unnar úr fingraskanni vegabréfshafa.“

Ég vil taka það fram varðandi þetta með stafrænu myndina að á ákveðnu stigi í þessu undirbúningsferli komu fram viðhorf frá ljósmyndurum sem töldu að með því að færa þetta þannig inn til sýslumanna, að menn gætu tekið sjálfir af sér þessar myndir, væri verið að draga úr störfum ljósmyndara en náðst hefur samkomulag við þá um það hvernig þeir geta komið að þessu og sent stafrænar myndir til útgáfuaðila vegabréfanna þannig að þeirra starfsöryggi er ekki stefnt í voða með þessari breytingu.

Þá er spurt:

„Af hverju vegabréf með lífkennaupplýsingum, rafræn vegabréf?“

Svarið er:

„Alþjóðaflugmálastofnunin hefur um árabil unnið að þróun rafrænna vegabréfa með lífkennaupplýsingum. Nú hafa mál þróast þannig að alþjóðasamfélagið krefst rafrænna vegabréfa og til þess að tryggja Íslendingum viðunandi ferðafrelsi er nauðsynlegt að hefja útgáfu slíkra vegabréfa sem fyrst. Evrópusambandið hefur samþykkt að öll ríki þess hefji útgáfu rafrænna vegabréfa eigi síðar en 28. ágúst 2006. Þessi samþykkt Evrópusambandsins er einnig skuldbindandi fyrir Ísland.“

Þá er spurning hér:

„Verða nýju vegabréfin með lífkennaupplýsingum dýrari en eldri vegabréf?“

Svarið við því er:

„Nýju vegabréfin verða nokkuð dýrari í framleiðslu en eldri vegabréf. Ekki er þó ráðgert að hækka verð þeirra til handhafa.“

Ég vil vekja athygli á því að í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að vegabréfið gildi eins og segir hér í 5. gr.:

„Gildistími almenns vegabréfs skal vera fimm ár frá útgáfudegi en heimilt er að lengja þann tíma eftir því sem ákveðið skal í reglugerð. Gildistími annarra vegabréfa skal ákveðinn í reglugerð.“

Þarna er gildistíminn styttur úr tíu árum í fimm og ástæðan fyrir því er sú að menn eru ekki öruggir um það hvernig þessi nýja tækni endist, hvað hún er endingargóð. Ef það kemur í ljós að hún heldur fullu gildi eftir fimm ár er einfalt að gefa út reglugerð um það að þessi vegabréf skuli framlengd um fimm ár eða hvaða tíma sem menn ákveða í því efni þannig að þetta er varúðarákvæði um gildistímann í fimm ár til þess að menn hafi svigrúm í því efni með hliðsjón af reynslunni.

Virðulegi forseti. Ég taldi nauðsynlegt að gera svo rækilega grein fyrir þessu litla frumvarpi, sem er nú samt stórt, því að það snertir Íslendinga mjög sem ferðast mikið og vilja hafa ferðaskilríki sín í góðu lagi. Ég vona því að það fái góða umfjöllun hér í þinginu og skjóta afgreiðslu til þess að við getum búið þessi skilríki sem best í hendur okkar borgara og innan þeirra tímamarka sem okkur eru sett.