132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Fæðingarorlofssjóður.

424. mál
[12:11]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil bara koma hér upp til að lýsa því yfir að ég styð þá viðleitni — geta skal þess sem gott er — að reynt sé að flytja eitthvað af opinberum störfum út á land. Ég hef margoft minnst á þetta hér í ræðustól og nú síðast í gær þegar hæstv. forsætisráðherra var að mæla fyrir frumvarpi um þjóðskrá og ég tel að gera þurfi stórátak í þessum efnum. Stjórnvöldum ber að gera stórátak í því að flytja opinber störf af höfuðborgarsvæðinu út á land og þarna tel ég að sé í raun og veru ekkert annað en vilji sem þurfi til, vilji og kjarkur og það á að geta skilað okkur mjög miklu.

Ég tel að margar aðgerðir þar sem farið hefur verið út í þetta hafi heppnast vel. Landmælingar voru fluttar í heimabæ minn, Akranes, fyrir nokkrum árum og ég leyfi mér að fullyrða að það hafi verið mjög vel heppnað þegar upp er staðið og hefur á ýmsan hátt stóreflt byggðina á Akranesi.