132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Fæðingarorlofssjóður.

424. mál
[12:15]
Hlusta

Ísólfur Gylfi Pálmason (F):

Herra forseti. Ég vil þakka þessa fyrirspurn og svar hæstv. ráðherra en eins og fram hefur komið hjá fleiri þingmönnum er afar brýnt að flytja opinber störf út á landsbyggðina og gera þannig atvinnuflóruna á landsbyggðinni fjölbreyttari en hún er nú. Það er mikið af góðum starfsmönnum þar, eins og reyndar á höfuðborgarsvæðinu. Þetta hefur líka mikil áhrif á menningu í hverju byggðarlagi.

Ég hef lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu um alþjóðlegt rannsóknarsetur Landgræðslunnar í Gunnarsholti. Ég sé fyrir mér að þangað gætum við fengið erlenda vísindamenn til starfa jafnt sem íslenska. Við erum ákveðnir frumkvöðlar í landgræðslu á Íslandi. Þarna eru miklir möguleikar og það er vert að þakka ríkisstjórninni fyrir þá viðleitni sem hún hefur sýnt í þessum efnum þó að gera megi mun betur.