132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Fæðingarorlofssjóður.

424. mál
[12:16]
Hlusta

Adolf H. Berndsen (S):

Virðulegur forseti. Ég vil koma upp og þakka þessa ákvörðun félagsmálaráðuneytisins. Hún er mikið fagnaðarefni og ekki veitir af, því það svæði sem hér er verið að ræða um að störfin flytjist á, þ.e. Húnavatnssýslur, hefur átt í miklum erfiðleikum m.a. vegna breytinga á atvinnuháttum. Það hefur orðið hrun í rækjuveiðum og vinnslu sem hefur haft mikil áhrif, auk breytinga á öðrum atvinnuháttum. Þetta þekkja menn. Ég vil líka benda á að nýjar upplýsingar um fækkun opinberra starfa á Norðurlandi vestra á síðustu níu árum sem komu fram í gær ýta enn frekar undir rök með þessu verkefni.

Það var spurt af fyrirspyrjanda um vinnuaflið. Við teljum að á þessu svæði sé til gott vinnuafl sem vill skoða ný tækifæri og það er vert að segja frá því hér að í Austur-Húnavatnssýslu eru núna 25–30 manns í skrifstofutækninámi, ítarlegu námi sem tengist því máli sem hér er rætt auk áforma dómsmálaráðherra að ákveðið hefur verið að flytja miðstöð innheimtu sektagreiðslna á Blönduós. Við þurfum fleiri svona mál.