132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Fæðingarorlofssjóður.

424. mál
[12:19]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef fullan skilning á því að landsbyggðarþingmenn komi allir upp og fagni því að flytja eigi störf út á land. Eins og ég sagði í ræðu minni þá er ég ekki á móti því en aftur á móti teldi ég að þangað ætti að flytja ný störf en ekki taka gömul gróin sérhæfð störf innan úr gróinni stofnun eins og Tryggingastofnun og flytja þau út á land. Það er mín skoðun og ég tel að það lýsi ákveðinni vanþekkingu á málaflokknum að ætla að taka þessi störf út úr honum og setja út á land.

Það er annað. Rökin um að þetta séu atvinnutengdar greiðslur halda ekki því allar bætur sem Tryggingastofnun afgreiðir eru það.

Þegar ég var að fara yfir þessa fyrirspurn á sínum tíma skoðaði ég hvernig staðan væri í atvinnumálum í Húnavatnssýslum og svo aftur á móti í Reykjavík og það er mun meira atvinnuleysi í Reykjavík en í Húnavatnssýslum. Þegar ég skoðaði þessi mál voru 17 manns atvinnulausir í Húnavatnssýslum en það eru hátt á annað þúsund manns atvinnulausir í Reykjavík þannig að það þarf líka að huga vel að því að halda utan um störfin í Reykjavík. Það hefur líka komið fram að flutningurinn út á land kostar meira, eins og fréttir af Viðskiptaþingi í vetur sýndu, og það er líka ljóst að það þarf fleiri til að vinna þessi störf úti á landi, samanber frétt frá Árna Magnússyni, fyrrverandi ráðherra, en eru að sinna þessu í dag í Tryggingastofnun. En ég sé að hæstv. ráðherra ætlar a.m.k. að hafa nokkra starfsmenn, sérfræðinga, í Reykjavík til að sinna þessu máli þannig að hann hefur aðeins bakkað miðað við fyrirrennara hans.

Ég verð að segja að ég er ekki sátt við það þegar staðið er að flutningi út á land á þann hátt að verið sé að taka gróin störf út úr gróinni stofnun, það á að færa ný störf út á land og það styð ég heils hugar og mér finnst það mikilvægt að störf fari út á land, en ekki með svona vinnubrögðum.