132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Kadmínmengun.

572. mál
[12:46]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa miklum vonbrigðum með þetta svar hjá hæstv. umhverfisráðherra. Það eru núna liðin bráðum fimm ár frá því fyrst varð vart við þessa mengun og stjórnvöld gripu til aðgerða til að stöðva nýtingu á nytjastofnum í Arnarfirði vegna þess að þar væri of hátt innihald af kadmíni. Fimm ár hafa liðið og enn liggja ekki fyrir niðurstöður úr grundvallarrannsóknum á vandamáli sem hefur svipt þessar byggðir möguleikum til nýtingar á sínum mikilvægustu nytjastofnum. Þetta er hreinlega ekki boðlegt. Þetta er hreinlega ekki boðlegt, þessi frammistaða af hálfu stjórnvalda. Að sjálfsögðu hefði strax átt að setja í þetta bæði peninga og mannafla til að komast til botns í því hvað væri hér á ferðinni.

En mér sýnist, því miður, að stjórnvöld ætli enn að draga lappirnar. Ég hef tvisvar sinnum borið upp fyrirspurn um þetta til umhverfisráðherra. Í bæði skiptin hefur verið látið í það skína að þetta væri nú allt saman að koma, það væri verið að rannsaka þetta, það væri búið að setja peninga í þetta og annað þess háttar. En svo dregst þetta og dregst. Þetta er alls ekki boðlegt.