132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Merking matvæla.

633. mál
[13:00]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það sem skiptir höfuðmáli hvað varðar stjórnsýslu umhverfisráðherra er náttúrlega að tryggja öryggi matvæla og að það sé tryggt að ekki séu umfram varnarefni eða aðskotaefni í vörunni. Það ætti að vera höfuðmarkmið í starfi hæstv. umhverfisráðherra.

Hvað það varðar að merkja vörur sérstaklega þá er vert ræða það hér hvort íslenskir framleiðendur ættu ekki að taka það upp hjá sjálfum sér að merkja þær með íslensku merki. Í því sambandi er vert að fara yfir það hvort reglur um íslenska fánann standi því eitthvað fyrir þrifum og hvort rýmka mætti þær til að auðvelda íslenskum neytendum að átta sig á að þeir séu að kaupa íslenska vöru. Ég tel rétt að fara yfir það en ég tel einnig varhugavert að ætla erlendum framleiðendum eða pökkunaraðilum að setja fjöldann allan af erlendum merkjum á vöruna.