132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu.

485. mál
[13:07]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Frú forseti. Málefni öldrunarsjúklinga á Landspítala – háskólasjúkrahúsi hafa verið þó nokkuð í umræðunni í vetur og ástandið ekki verið gott. Síðast þegar við ræddum þessi mál voru fastir inni á deildum 90 sjúklingar sem ekki var hægt að útskrifa þó að búið væri að veita þeim alla lækningu. Þetta er mjög dýrt og mikið óhagræði fyrir sjúklingana.

Mig langar til að vekja athygli á og spyrjast fyrir um annan hóp sjúklinga en það eru þeir sem eru inni á fimm daga deildum, öldrunardeildunum á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Ég ætla að spyrjast fyrir um heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu og þjónustu við þessa sjúklinga á Landspítala – háskólasjúkrahúsi sem fara heim um helgar.

Þannig er að þessir sjúklingar eru sendir heim um helgar af þessum deildum og þá þurfa margir þeirra á heimahjúkrun að halda. Ef hún fæst ekki þarf að leggja þá inn á aðrar deildir sem reknar eru yfir helgar, þ.e. alla vikuna. Þetta er mjög mikið rask fyrir sjúklingana fyrir utan það að þarna er verið að veita aðra þjónustu en á þeim deildum sem þeir eru annars á. Ástandið í heimahjúkrun hefur verið þannig að hún hefur ekki getað bætt við sig þessum sjúklingum oft og tíðum og þá hafa þeir lent í þessu. Nú er ástandið þannig að t.d. um næstu helgi mun a.m.k. önnur fimm daga deildin á Landspítalanum þurfa að vera opin um helgina og það hefur gerst ítrekað að hafa hefur þurft opið vegna þessa. Þess vegna spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra:

1. Hversu oft á undanförnum tveimur árum hefur öldrunarsjúklingum á fimm daga deildum Landspítala – háskólasjúkrahúss (LSH) verið synjað um heimahjúkrun?

2. Hversu oft á sama tímabili hefur slík synjun komið í veg fyrir útskrift sjúklinga?

3. Hversu oft á sama tímabili hefur aðeins verið unnt að bjóða öldruðum sem stóð til að útskrifa af LSH upp á skerta heimahjúkrunarþjónustu?

Þegar aðeins er hægt að bjóða upp á skerta þjónustu er auðvitað ekki hægt að útskrifa sjúklingana af spítalanum vegna þess að sjúklingarnir sem fara annaðhvort heim um helgar eða útskrifast þurfa að fá fulla heimaþjónustu. Því spyr ég hæstv. ráðherra um það hversu oft þessi staða hefur verið uppi á undanförnum árum. Auðvitað þyrfti ég líka að spyrja hæstv. ráðherra hversu oft það hafi gerst að þurft hafi að halda fimm daga deildunum opnum um helgar vegna þessa ástands og kannski getur hæstv. ráðherra svarað því einnig en ég fer þó ekki fram á það hér.