132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu.

485. mál
[13:20]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það er alls ekki svo að við séum með einhverja sýndarmennsku í málefnum aldraðra. Ég held að allir hljóti að sjá að það er búið að gera geysilega margt gott í málefnum þeirra. Unnið hefur verið eftir því samkomulagi sem gert var við aldraða á árinu 2002. Ég veit að sá hv. þingmaður sem kom hér upp og talaði um sýndarmennsku áðan var sjálfur viðstaddur á fundi þar sem farið var yfir þau mál. Það var staðið við alla þætti samkomulagsins, það eru einungis sveigjanleg starfslok sem skoða þarf betur.

Ég vil taka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur að þessi tvískipting þjónustunnar sé mjög umhugsunarverð, þ.e. að félagsþjónusta sveitarfélaga sé með hluta þessarar þjónustu og heimahjúkrunin með annan hluta hjá þeim sem veikastir eru.

Fyrir stuttu fékk heilbrigðisnefnd Alþingis upplýsingar frá samþættingarverkefninu á milli Reykjavíkurborgar og heilbrigðisyfirvalda um samþættingu heimahjúkrunar og heimaþjónustu sveitarfélaganna og ríkisins. Við þá yfirferð vöknuðu mjög margar spurningar. Þar sást t.d. að heimahjúkrunin var mun stærri hluti en ég taldi að hún ætti að vera í eðlilegu samhengi og félagsþjónustan minni. Þarna er einhver pottur brotinn, eitthvað sem virkilega þarf að skoða. En á sama tíma vitum við að mjög erfitt er að fá fólk í félagsþjónustuna. Það er þensla í samfélaginu og þetta leiðir mann yfir í almenna launapólitík, það á að hækka laun þessara aðila. Það eru mikilvæg störf sem þarna eru unnin. En hvað þá með aðrar stéttir sem væntanlega vilja fylgja í kjölfarið? Umræðan fer því fljótt út í almenna launamálastefnu.

En ég ítreka að það er brýnt að samþætta heimaþjónustuna og það verður skoðað á næstunni hvort hægt er að gera það betur en áður hefur verið.