132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Áfengisráðgjafar.

535. mál
[13:38]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson) (Sf):

Frú forseti. Ég ber hér upp fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra og vil byrja á því að óska henni til hamingju með nýja embættið. Þessi fyrirspurn er um ráðgjafa og þá fyrst og fremst um útgáfu svokallaðra starfshæfnisvottorða fyrir áfengisráðgjafa.

Athygli mín var vakin á þessu máli með tveimur blaðagreinum sem birtust í Morgunblaðinu í fyrra þar sem greinarhöfundarnir, Sigrún Júlíusdóttir, prófessor í félagsráðgjöf, og Sæunn Kjartansdóttir, sjálfstætt starfandi sálgreinir, veltu fyrir sér meðferðarstörfum og ráðgjöf og jafnvel þörf á opinberu eftirliti. En þar segja þær m.a., með leyfi forseta:

„Með tilkomu svokallaðra stoðstétta bauðst fólki kostur á sérhæfðari úrræðum, svo sem félagsráðgjöf, sálfræðiviðtölum, sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun. Á allra síðustu árum hefur átt sér stað gríðarleg þensla í meðferð sem í daglegu tali kallast óhefðbundin. Mörg slíkra úrræða hafa reynst fólki vel, […]. Þetta á ekki síst við í ráðgjafar- og meðferðarstörfum. Ráðgjafarhugtakið er orðið að einhvers konar safnkistu yfir allt sem nöfnum tjáir að nefna, allt frá snyrtingarráðgjöf, útlits-, offitu-, fjármála-, fata-, áfengis-, hjóna-, uppeldis-, og næringarráðgjöf til erfðaráðgjafar. Í nafni ráðgjafar getur nánast hver sem er gefið sig út fyrir að „kunna allt“ …“

Þetta segja þær stöllur í blaðagreininni og benda jafnframt á að þrátt fyrir að stór hluti almennings sé vel upplýstur og á varðbergi gagnvart þeim sem hann leitar til og bera titilinn ráðgjafar, þá megi reikna með því að þeir sem að minna mega sín og þurfa virkilega á aðstoð að halda glími við skort á sjálfstrausti séu þá jafnvel auðveldari bráð þeirra sem hafa ekki nægilega faglega þekkingu til að sinna ráðgjafahlutverki sínu.

Í framhaldi af þessu hefur Félag áfengisráðgjafa verið að kalla eftir lögum um starfsréttindi áfengis- og vímuefnaráðgjafa, eins og kemur fram í sérriti félags þeirra, sem við fengum í janúar ef ég man rétt, þar sem þeir vilja að faglegar kröfur til þeirra séu skilgreindar í samráði við landlækni og menntamála- og heilbrigðisráðuneyti sem undirbúi útgáfu starfsréttindavottorða.

Frú forseti. Af þessu tilefni beini ég þessari fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra:

1. Hversu margir áfengisráðgjafar eru starfandi á Íslandi?

2. Hvaða faglegar kröfur gerir ráðuneytið til þeirra sem starfa sem áfengisráðgjafar?

3. Hyggst ráðherra vinna að útgáfu starfsréttindavottorða fyrir áfengisráðgjafa?