132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Áfengisráðgjafar.

535. mál
[13:47]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra ágæt svör og þeim sem tekið hafa þátt í umræðunni. Varðandi málefni áfengisráðgjafa sérstaklega þá hljótum við öll að vera sammála um að þarna á sér stað gífurlega mikilvæg þjónusta fyrir einstaklinga, fjölskyldur og þjóðina alla. En eins og kom fram í greinum þeirra sérfræðinga sem ég vitnaði í áðan gætu í raun og veru allir kallað sig áfengisráðgjafa í dag. Tilgangurinn með því að setja lög um starfsréttindi felst fyrst og fremst í því að vernda sjálfan sjúklinginn, þann sem leitar aðstoðar. Þetta snýst kannski ekki fyrst og fremst um þann sem er ráðgjafi heldur sjúklinginn, að hann geti gengið að því vísu að viðkomandi ráðgjafi hafi farið í gegnum ákveðið nám og reynslu og hafi virkilega þekkingu til að vinna að þessum málum.

Eftir að ég lagði fram fyrirspurnina í byrjun febrúar fengum við þingmenn ályktun frá aðalfundi Félags áfengisráðgjafa þar sem segir í lok hennar, með leyfi forseta:

„Fundurinn skorar á Alþingi að hefja nú þegar samstarf við þá um gerð frumvarps til laga um áfengis- og vímuefnaráðgjöf.“

Ég fagna því að hæstv. heilbrigðisráðherra ætli að fela landlækni að skoða þetta mál en ég ítreka að það er mjög nauðsynlegt, sérstaklega fyrir sjúklinginn að vita að hverju hann gengur, að vita að það sé löggiltur áfengisráðgjafi með nægilega þekkingu, reynslu og menntun sem aðstoðar hann við þessi persónulegu vandamál og sjúkdóm sem viðkomandi glímir við.