132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Eftirlit með staðsetningu sjúkraflugvéla.

544. mál
[13:52]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég hygg að enginn velkist í vafa um það að sjúkraflugið er afskaplega mikilvægur þáttur í heilbrigðisþjónustu okkar, þ.e. að fyrir hendi séu flugvélar á réttum stöðum til að flytja fólk til sjúkrahúsa þegar mikið liggur við.

Við sáum þetta kannski skýrt í svari við fyrirspurn frá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur varðandi umferð um Reykjavíkurflugvöll fyrir fáum dögum. Þar kom fram að farþegar með sjúkraflugi til og frá Reykjavíkurflugvelli voru 1.126 á síðasta ári, fjölgaði um tæp 400 frá árinu áður en þá voru þeir 729. Þetta segir náttúrlega meira en mörg orð. Árið 2003 voru þeir 814, en einungis 493 árið 2002. Þetta virðist vera sveiflukennt en samt sem áður held ég að enginn þurfi að velkjast í vafa um það að hér er um mjög mikilvægt öryggisatriði að ræða.

Við erum svo lánsöm, við Íslendingar, að vera með góðan flugvöll á réttum stað í grennd við helstu sjúkrahús landsins. Hér er ég að tala um Reykjavíkurflugvöll sem staðsettur er í Vatnsmýri og hann á að vera þar áfram. Það er skýr stefna okkar í Frjálslynda flokknum en það er ekki nóg með að við séum með flugvöll á réttum stað, við verðum líka að hafa flugvélar og þær verða líka að vera á réttum stað þegar á þarf að halda.

Undanfarna mánuði höfum við orðið vitni að nokkrum óþægilegum uppákomum þar sem í ljós hefur komið að flugvélar hafa ekki verið til staðar, eða verið of seinar á vettvang. Ég get nefnt dæmi frá Vestfjörðum um áramótin, eitt tilfelli á Tálknafirði þar sem ungur maður þurfti að komast undir læknishendur en það kom í ljós að sjúkraflugvélin var ekki staðsett þar sem hún átti að vera. Síðan hafa einnig orðið uppákomur í Vestmannaeyjum þar sem komið hefur í ljós að sjúkraflugvélar sem vera áttu í Vestmannaeyjum, á Vestmannaeyjaflugvelli, hafa ekki verið til taks þegar á hefur reynt.

Þetta er ástæðan, virðulegi forseti, fyrir því að ég settist niður og samdi þessa fyrirspurn sem mig langar til að bera fram fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra. Spurningarnar hljóða svo:

1. Hefur ráðuneytið eftirlit með því að staðsetning sjúkraflugvéla sé ávallt í samræmi við þá samninga sem gerðir hafa verið um sjúkraflug?

2. Eru einhver refsiákvæði í þeim samningum sem gilda ef flugfélög standa ekki við þá?

Nú vil ég taka fram að annað af þeim flugfélögum sem hafa verið gagnrýnd fyrir að hafa ekki staðið sína plikt fullyrðir að það hafi í raun og veru staðið við alla sína samninga. Ég ætla svo sem ekki að fullyrða neitt meira um það en mig langar til að vita hvort þó séu fyrir hendi einhver (Forseti hringir.) refsiákvæði samninganna.