132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Eftirlit með staðsetningu sjúkraflugvéla.

544. mál
[13:55]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hér er spurt hvort heilbrigðisráðuneytið hafi eftirlit með því að staðsetning sjúkraflugvéla sé ávallt í samræmi við þá samninga sem gerðir hafa verið um sjúkraflug. Því er til að svara að á síðasta ári voru farin rúmlega 400 sjúkraflug, að meðaltali samtals rúmlega eitt sjúkraflug á dag. Ráðuneytið fær reglulega yfirlit frá flugrekendum með upplýsingum um öll sjúkraflug, sundurliðuð eftir tegund útkalls. Yfirlitin sýna nákvæma tímasetningu um öll sjúkraflug. Yfirlitin sýna hvenær beiðni barst flugrekanda um sjúkraflug, hvenær flugvélin var tilbúin til brottfarar, hvenær flugvélin fór í loftið og hvenær lent var með sjúklinga á áfangastað. Það er viðbragðstími í sjúkraflugi umfram ákvæði gildandi samninga. Ber flugrekendum að koma með skýringar þar um. Viðbragðstími sjúkraflugs getur orðið lengri en ákvæði samninga gera kröfur um af óviðráðanlegum ástæðum, svo sem vegna veðurs eða ófærðar. Þá kemur fyrir að það taki heilbrigðisstarfsfólk talsverðan tíma að undirbúa sjúklinga fyrir sjúkraflug og getur það leitt til tafar á brottför flugvéla.

Ráðuneytið hefur beint því til heilbrigðisstofnana sem nýta sér þjónustu sjúkraflugs að þær tilkynni ráðuneytinu ef flugrekendur standa ekki við gerða samninga. Með nýjum samningum sem tóku gildi um áramótin var fagleg framkvæmd sjúkraflugs efld enn frekar með því að ráða sjúkraflutningamann til að hafa eftirlit með samningum um sjúkraflug. Starfsmaðurinn sér um að tryggja gæði og áreiðanleika sjúkraflugsins ásamt því að hafa eftirlit með búnaði sem notaður er til sjúkraflugs.

Virðulegi forseti. Það er líka spurt: Eru einhver refsiákvæði í þeim samningum sem gilda ef flugfélög standa ekki við þá?

Því er til að svara að það eru vanefndarákvæði í samningum um sjúkraflug eins og er í öðrum samningum sem ráðuneytið gerir. Heimilt er að fella niður greiðslur vegna þess sem vanefnt hefur verið, hvort sem um er að ræða tímabil og/eða einstök flug. Þá er samkvæmt samningunum heimilt að segja samningunum upp án fyrirvara verði vanefndir ítrekaðar eða stórfelldar.

Þær skyldur voru settar á flugrekendur að þeir keyptu verktryggingu hjá banka til tryggingar skyldum sínum samkvæmt samningum. Hægt er að krefjast greiðslu tryggingarinnar án undangengins dómsúrskurðar. Hér er um að ræða talsverð refsiákvæði ef flugfélögin standa ekki við samninga sína.

Ég vil að lokum taka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni varðandi staðsetninguna á Reykjavíkurflugvelli út frá sjónarhóli heilbrigðisþjónustunnar. Það er alveg ljóst að sjúkraflugið á Íslandi er talsvert umfangsmikið og líklega umfangsmeira en margur heldur. Það er sem sagt rúmlega eitt flug á dag og þessi flug fara að mestu leyti fram með flugvélum, að einhverju leyti með þyrlum en þyrlur geta alls ekki sinnt öllu sjúkrafluginu. Það er bara af tæknilegum ástæðum. Það er mjög mikilvægt fyrir öryggi sjúklinga að lágmarka þann tíma eins og hægt er sem það tekur að flytja sjúklinga í bráðri hættu á sjúkrahús. Það er oft talað um hina gullnu klukkustund, „golden hour“, því fyrr sem sjúklingurinn kemst undir hendur lækna, tækjabúnaðar og flókinna þjónustuúrræða, því betra fyrir hann. Ég hef verið talsmaður þess að við höfum okkar öflugustu sjúkrahúsþjónustu í eins nánum tengslum við flugvöll og hægt er, eins og er í dag.