132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Eftirlit með staðsetningu sjúkraflugvéla.

544. mál
[14:04]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að þakka fyrir þessa stuttu athugasemd sem kom síðast frá hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur. Ég er henni svo hjartanlega sammála.

Sú röksemd að hafa flugvöllinn í Vatnsmýri vegna sjúkraflugs er bara ein af mörgum röksemdum fyrir því að við höfum þennan flugvöll staðsettan þar sem hann er. Þetta er ekki eina röksemdin, eins og mér heyrðist hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson benda á sem þó er sjálfur landsbyggðarþingmaður. Hygg ég að ýmsum í kjördæmi hans, Suðurk., hafi þótt áhugavert að heyra að hann vilji að þessi flugvöllur fari. Ég held að það sé mjög mikilvægt hagsmunamál fyrir einmitt þetta svæði að hafa flugsamgöngur (Gripið fram í.) til miðborgar Reykjavíkur, ekki síst með tilliti til öryggissjónarmiða. Get ég þar nefnt svæði eins og Skaftafellssýslur, Rangárvallasýslu og Vestmannaeyjar. En nóg um það, virðulegi forseti.

Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svörin. Ég heyri að fyrir hendi er ákveðið aðhald og að mér heyrist a.m.k. heimildir fyrir því að þarna sé beitt miklu aðhaldi og jafnvel refsingum ef út af ber. Hins vegar höfum við ekki heyrt af því að til þess hafi verið gripið og það má kannski segja að það sé jákvætt í sjálfu sér. Það er alltaf leiðinlegt að þurfa að beita slíkum ákvæðum og það verður að halda því til haga líka að flugfélögin hafa bent á það eða komið með skýringar á því af hverju þessar vélar hafa brugðist í þeim tilfellum sem ég nefndi áðan, nýlegum tilfellum. Við hljótum líka að taka tillit til sjónarmiða þeirra. Hins vegar hljótum við ávallt að leggja á það áherslu, og hana mikla, að við veitum mikið aðhald í þessum efnum, að fylgst sé með því að þessar vélar séu til staðar. Því skulum við bara vona að þau atvik sem við urðum vitni að í vetur muni ekki endurtaka sig. Sjúkraflugið er allt of mikilvægt til að slíkt megi gerast.