132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Hreyfing sem valkostur í heilbrigðisþjónustu.

560. mál
[14:11]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hér er spurt um hreyfingu sem valkost í heilbrigðisþjónustu og hvort uppi séu áform um að taka upp útgáfu hreyfiseðla eða grænna seðla, og ef svo er hvar málið sé statt í undirbúningi.

Á undanförnum árum hafa komið fram sífellt áreiðanlegri upplýsingar um gildi hreyfingar til að fyrirbyggja sjúkdóma og bæta líðan vegna fjölmargra sjúkdóma og kvilla. Hreyfing hefur góð áhrif á þunglyndi, hjarta, æðakerfi og stoðkerfi sjúklinga svo að fátt eitt sé talið. Þá er óumdeilt að kyrrseta eykur hættu á offitu, en offita er einmitt gríðarlega vaxandi vandamál í öllum vestrænum löndum. Það er því mikilvægt að fólk hreyfi sig reglulega, bæði meðan það er við góða heilsu og eins þegar ýmsir langvinnir sjúkdómar sækja að. Í nágrannalöndum okkar hafa verið gerðar tilraunir til að fá lækna til að gefa út svokallaða hreyfiseðla í staðinn fyrir eða ásamt lyfseðlum. Hér hefur farið fram umræða um hvort rétt sé að taka upp slíka seðla en það mál hefur ekki verið til lykta leitt enn þá.

Á Heilsugæslustöðinni í Garðabæ er hafinn undirbúningur að því að innleiða notkun á hreyfiseðli, þ.e. læknar munu vísa völdum hópi sjúklinga á hreyfingu sem meðferðarúrræði. Undirbúningur að því verkefni hófst síðasta haust og samstarf er hafið milli heilsugæslunnar og bæjarfélagsins. Stefnt er að samvinnu við sjúkraþjálfara, almenning, íþróttadeild íþróttafélagsins Stjörnunnar, sundstaði bæjarins og fleiri. Stefnt er að því að bjóða upp á hreyfiseðilinn sem meðferðarúrræði í Garðabæ strax haustið 2006. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið mun fylgjast náið með framgangi þessa verkefnis.

Einnig hafa Lýðheilsustöð og Íþróttasamband Íslands tekið upp samstarf og undirbúa nú verkefni sem hefur það að markmiði að auka þátttöku almennings í hreyfingu. Það samstarf er nýhafið og ekki enn ljóst hvernig verkefninu verður háttað í smáatriðum en markhópurinn verður fyrst og fremst almenningur frekar en fólk með langvinn veikindi. Verði ákvörðun tekin um að þróa frekar hugmyndina um hreyfiseðil mun þetta verkefni geta verið meðal þeirra valkosta sem boðið yrði upp á sem langtímaeftirfylgd. Að mínu mati er mjög mikilvægt að samfélagið í heild stuðli að aukinni hreyfingu almennings, bæði áður en veikindi steðja að og líka síðar því að betra er heilt en vel gróið. Því er æskilegt að umhverfið sé þannig úr garði gert að það hvetji til hreyfingar, t.d. með því að sveitarfélög skipuleggi göngustíga sína og útivistarsvæði þannig að þau hvetji til hreyfingar og að samgöngumannvirki séu skipulögð þannig að auðvelt sé að ferðast um gangandi eða hjólandi milli staða.

Virðulegur forseti. Almennt er hreyfing mjög mikilvæg. Hins vegar spyr ég mig: Er rétt að koma hér upp hreyfiseðlum sem við borgum læknum fyrir að gefa út og borgum svo fólki fyrir að hreyfa sig og fara í þau úrræði sem boðið er upp á? Hvað eigum við að ganga langt í því? Ég viðurkenni að ég hef talsverðar efasemdir um þingsályktunartillöguna sem hér var komið inn á líka. Ég skoðaði hana á sínum tíma og ákvað að vera ekki einn af flutningsmönnunum og það var m.a. vegna þess sem kemur fram í henni, þ.e. að samkvæmt tillögunni sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir er 1. flutningsmaður að og fólk úr Framsóknarflokknum er líka á, eins og hv. þm. Magnús Stefánsson, á að skipa nefnd til að skoða þessi mál. Í þingsályktunartillögunni stendur, með leyfi forseta:

„Þá þarf nefndin að meta hvort almannatryggingarnar eigi að taka þátt í hreyfingaráætlun sem læknar vísa á og hvernig eftirliti og eftirfylgni skuli háttað. Einnig þarf nefndin að athuga hvort mennta þurfi sérstaka hreyfingarráðgjafa og þá hvernig þeirri menntun skuli háttað.“ — Við þurfum að fara vel með fé skattborgaranna. Heilbrigðisþjónustan er dýr og hún er mikilvæg. Hvað er mikilvægast? Hvernig eigum við að forgangsraða öllum þeim verkefnum sem eru fram undan? Þá spyr ég mig: Er þetta brýnast? Eigum við að láta skattborgarana borga í gegnum almannatryggingarnar fyrir að fólk hreyfi sig? Ég hef vissar efasemdir um það. Mér finnst að við þurfum að stíga mjög létt til jarðar áður en við tökum einhver slík skref. Ég sé að í Noregi hefur verið heimilað að greiða læknum fyrir að gefa út hreyfiseðla. Mér finnst að hreyfing eigi að vera nú þegar meðferðarúrræði, þ.e. læknar eigi að segja við fólk sem kemur til þeirra að það eigi að hreyfa sig, og þeir gera það langflestir. Það er hluti af heilbrigðum lífsstíl. Ég hef vissar efasemdir um að við stígum inn í það kerfi (Forseti hringir.) að við borgum með skattfé (Forseti hringir.) borgaranna. Þess vegna erum við að ræða það.