132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Hreyfing sem valkostur í heilbrigðisþjónustu.

560. mál
[14:19]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er enginn að tala um að borga fullfrísku fólki úr opinberum sjóðum. Það er verið að tala um að hjálpa öryrkjum og fátæku fólki til að fjárfesta í líkamsrækt í ákveðnum tilfellum.

Það sem skiptir mestu máli er að gera eigi tilraunir með svokallaða hreyfiseðla. Ég fagna því og fagna umræðunni. Þetta eru sjúkdómar tíðarandans, hreyfingarleysi, offita og ofát hvers konar eru sjúkdómar sem tengjast breyttu neyslumynstri á fæðu og breyttum lifnaðarháttum frá degi til dags. Fjöldi fólks vinnur kyrrsetuvinnu sem áður vann líkamlega erfiðisvinnu. Forsendur hafa því breyst sem kallar á ný viðhorf hjá læknum. Læknar leiðbeina sjúklingum sínum, þeim ber skylda til að hvetja þá til að hreyfa sig og stunda hollari lífshætti í stað þess að moka í þá lyfjum og slíkum óþverra, sem er í mörgum tilfellum óþarft að gera. Oft er þar um að ræða úreltar læknisaðferðir. Hér er hins vegar vísir að nútímalegri umræðu um hollustuhætti.