132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Hreyfing sem valkostur í heilbrigðisþjónustu.

560. mál
[14:21]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég fagna því að Garðbæingar ætli að fara af stað með hreyfiseðla sem tilraunaverkefni. Ég tel það framsýni og er sannfærð um að í framhaldinu muni fleiri gera hið sama. Aftur á móti þarf að huga að ýmsu ef fleiri fara út í þetta. Það þarf að samræma vinnubrögðin. Ég treysti því að hæstv. ráðherra láti fara í þá vinnu í ráðuneytinu, að meta vinnubrögð og hvort mennta þurfi starfsfólk til að fylgja eftir hreyfiáætlunum eða hreyfiseðlum.

Í þingsályktunartillögu minni er lagt til að menn meti hvort almannatryggingarnar komi inn í slíkt fyrirkomulag, verði hreyfiseðlarnir teknir upp. Það er vegna þess að á Norðurlöndunum hafa menn farið í að styðja fátæka, atvinnulausa eða þá sem illa eru staddir fjárhagslega til þess að fara í þá líkamsrækt sem læknar leggja til, til að geta farið á heilsuræktarstöð eða sótt líkamsrækt almennt. Auðvitað á þetta ekki að þurfa að kosta neitt en það þarf hvatningu.

Í Noregi er læknum borgað fyrir að skrifa hreyfiseðla. Ég teldi eðlilegt að sama fyrirkomulag gilti gagnvart læknum, að fylla út hreyfiseðil eins og lyfseðil. Það á ekki að borga meira fyrir hreyfiseðil en lyfseðil. Það er mun hagkvæmara fyrir samfélagið að læknir fylli út hreyfiseðil sem segir: Þú átt að fara í sund tvisvar í viku, út að ganga, á hlaupabraut eða hvað það er. Það er auðvitað einstaklingsbundið, eftir því hvað hrjáir hvern og einn. Síðan þarf einhver að fylgjast með því að farið sé eftir þessu. Það er reyndar meira en gert er með lyfseðla. Menn gefa út lyfseðla og enginn fylgist með því hvort fólk tekur inn lyfin sem því er ráðlagt að taka og oft er kostnaður við það. Ég minni á að sum lyf þurfa menn að borga að fullu, önnur greiða almannatryggingar. Menn telja ekki ástæðu til að almannatryggingakerfið greiði öll lyf.

En ég tek undir með hæstv. ráðherra. Betra er heilt en gróið. Ég hvet hæstv. ráðherra til að fara í þá vinnu sem lögð er til í þingmáli mínu í ráðuneyti sínu.