132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Endurskoðun laga um málefni aldraðra.

580. mál
[14:32]
Hlusta

Jón Kr. Óskarsson (Sf):

Frú forseti. Já, hæstv. heilbrigðisráðherra, það skal endurskoða málefni eldri borgara. Ég vil vitna í blað sem Landssamband eldri borgara gefur út og heitir Listin að lifa, með leyfi forseta:

„Fulltrúar Landssambands eldri borgara sóttu fund norrænu samtakanna í október. Þeir voru sammála um að mikið skorti á að kostir norrænu fyrirmyndarinnar séu virkir hjá okkur. Þau atriði sem hvað mest skáru sig úr í samanburði við hinar Norðurlandaþjóðirnar eru umönnunar- og hjúkrunarþættirnir, einnig að allur grunnlífeyrir skuli vera tekjutengdur hjá okkur. En svo er ekki í jafnríkum mæli hjá hinum norrænu þjóðunum. Þar fá allir verulega hærri grunnlífeyri, folkepension.“