132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Endurskoðun laga um málefni aldraðra.

580. mál
[14:35]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil einkum vekja máls á afkomu aldraðra, þ.e. tekjutengingum og grunnlífeyri og öðru slíku. Eins og menn vita er grunnlífeyririnn eina upphæðin í tryggingakerfinu sem er undanþegin skerðingarreglum gagnvart tekjum úr lífeyrissjóði og þessar 23 þús. kr. sitja eftir. Það þarf auðvitað að hækka grunnlífeyrinn en að mínu mati þarf líka að breyta þeim skerðingarreglum sem nú er beitt, þ.e. 45% reglunni. Það er ekki ásættanlegt að skerðingarreglurnar séu eins og þær eru í dag þegar grunnlífeyririnn, tekjutryggingin, heimilisuppbótin og tekjutryggingaraukinn duga samanlagt ekki fyrir framfærslu. Það er algerlega óásættanlegt, frú forseti.